139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég ætla ekki að fara í andsvar um það sem hann sagði áðan en hvet hann til að nema af fyrrverandi skólastjóranum, hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, því að það er augljóst að hann á eitthvað ólært í því máli sem við ræddum rétt áðan.

Ég ætlaði að spyrja hann út í annað mál sem ég hef vakið athygli á áður, bæði í hv. fjárlaganefnd og hv. heilbrigðisnefnd og sömuleiðis í þingsal, og snýr ekki að neinum smáaurum, þetta er ekki lítið mál. Það er um hvorki meira né minna en það að ná á niður kostnaði, miðað við óbreyttar forsendur, um 3.000 milljónir hjá Sjúkratryggingum Íslands. Það nákvæmlega sama var á ferðinni fyrir nákvæmlega ári síðan og þá spurðist ég fyrir um hvernig menn ætluðu að ná þá 2.800 milljóna sparnaði eða hvort það voru 3.000 milljónir, það skiptir ekki máli. Niðurstaðan var sú að það var ekki gert. Hæstv. þáverandi ráðherra hamaðist á forstjóra stofnunarinnar, henti á endanum út stjórninni og fékk síðan ákúrur frá ríkisendurskoðanda, eftir að beðið var sérstaklega um álit Ríkisendurskoðunar, þar sem hann áréttaði hið augljósa að það er ríkisstjórnin og meiri hlutinn sem verður að gefa línuna um það hvernig menn ætla að ná þessum sparnaði. Ekkert hefur komið fram í þeirri miklu umfjöllun sem hv. þingmaður var að lýsa hér hvernig menn ætla að ná þessum 3.000 millj. kr. sparnaði. Ég ætla ekki að lesa hér upp hvaða málaflokkar heyra undir Sjúkratryggingar en ég get fullyrt að þeir eru allir viðkvæmir, allir mikilvægir og allir snerta þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Ég vildi því spyrja hv. þingmann hvernig menn ætla að ná þessum sparnaði.