139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér við 3. og síðustu umræðu um fjárlög fyrir árið 2011.

Ég vil byrja á því að fara aðeins yfir það sem ég hef mestar áhyggjur af í fjárlagafrumvarpinu en það er tekjuhliðin. Allar þær hagvaxtarspár sem við höfum fjallað um undanfarið benda því miður til þess að allt sé eiginlega á niðurleið. Hagvaxtarspáin sem frumvarpið byggði á var mun hærri og gerði ráð fyrir 3,2% hagvexti. Síðan fengum við endurskoðaða þjóðhagsspá í nóvember og þá er spáin komin niður í 1,9% og er 0,2% lægri en spá Seðlabanka sem er upp á 2,1%. Eigi að síður er hún í hærri kantinum miðað við eina spá til viðbótar frá OECD sem er upp á 1,5% hagvöxt. Ef sú spá gengi eftir mundu tekjur ríkissjóðs minnka um 15 milljarða umfram það sem ráð er fyrir gert í frumvarpinu.

Því til viðbótar, virðulegi forseti, höfum við líka spá frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þar sem gert er ráð fyrir 0,7% hagvexti. Það þýðir að við gætum verið með 27 milljarða minni tekjur á næsta ári en ráð er fyrir gert. Ég ætla að sjálfsögðu að vona að þessar spár muni ekki ganga eftir. Hins vegar vil ég bara í þessari umræðu minna á í ljósi reynslunnar — við erum nýbúin að fjalla um skýrslu þingmannanefndarinnar þar sem það kom skýrlega fram og við lærðum það af bankahruninu eða hefðum a.m.k. átt að læra það — að við tökum þau varnaðarorð sem okkur berast mjög alvarlega.

Ef þetta færi nú á þann veg að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði rétt fyrir sér værum við núna með 37 milljarða halla sem við gerum ráð fyrir í frumvarpinu sem slíku. Við eigum eftir 23 milljarða viðbótarútgjöld vegna hugsanlegs Icesave-samnings, þá eru komnir 60 milljarðar. Ef versta spáin gengi síðan eftir værum við komin upp í tæplega 90 milljarða halla á ríkissjóði. Það er sko ekki létt verk, sérstaklega í ljósi þess að við erum nú þegar búin að pína alla skattstofna eins og mögulegt er og þurrausa þá. Þegar vinstri menn eru orðnir sammála um að ekki sé hægt að skattleggja meira er sko alveg öruggt að það er ekki hægt. Að mínu mati erum við þá reyndar komin langt út fyrir það sem getur talist skynsamlegt.

Ég vil að þetta komi skýrt fram, virðulegi forseti, vegna þess að ég hef heyrt það í málflutningi margra hv. þingmanna — ekki allra heldur sumra — þar sem þeir kveinka sér og segja: Þetta eru erfiðustu fjárlög sem lögð hafa verið fram. En það er því miður ekki sjálfgefið. Og þó svo að allt gangi eftir miðað við frumvarpið erum við samt með 60 milljarða halla ef á Alþingi verður samþykkt að ganga til samninga við Breta og Hollendinga vegna Icesave. Eftir er að skera niður um 60 milljarða og ég vil bara benda á það svo við setjum hlutina í rétt ljós. Við erum búin að skera niður á árinu 2010 og eftir árið 2011 verðum við búin að skera niður um 50 milljarða í heildina og við eigum hugsanlega eftir 60 milljarða. Sjá nú ekki allir verkefnið sem fram undan er? Það sjá það allir.

Auk þess höfum við líka skorið niður með mjög mörgum einskiptisaðgerðum, þ.e. við höfum minnkað framkvæmdastigið hjá hinu opinbera í verklegum framkvæmdum og öðru en við erum ekki búin að skera eins mikið niður og við þurfum að gera í mörgum stofnunum.

Mig langar að nefna eitt, virðulegi forseti, af því að menn tala um þann árangur sem ríkisstjórnin hefur náð. Ekki er deilt um að árangur hefur náðst í að ná niður halla ríkissjóðs og við erum sammála um það, a.m.k. flest hér inni, ef ekki öll, að mikilvægasta verkefni okkar fram undan er að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Það er stefnt að því og miðað við planið í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á það að nást á árinu 2013. Þetta plan hefur gengið eftir hingað til. Búið er að lækka vexti og verðbólgan er að lækka. Ég ætla mér að halda til haga staðreyndum í þessu svo menn haldi því ekki fram að enginn árangur hafi náðst.

Ég vil hins vegar gera það að umtalsefni hvernig þetta hefur tekist. Ef við tökum bara árin 2010 og 2011 þá eiga skattahækkanirnar að skila ríkissjóði 152 milljörðum kr. Búið er að hækka álögur á fólkið og heimilin í landinu og fyrirtækin um 152 milljarða á tveimur árum. Á sama tíma hafa ríkisútgjöld verið skorin niður um 50 milljarða. En hvað er það sem hefur lagað afkomu ríkissjóðs mest? Það eru vaxtagjöld og frekar óvæntar tekjur og fleira. Mjög sársaukafullar aðgerðir eru því eftir. Það er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því.

Síðan getum við rætt hvernig við höfum skipt álögunum og hvernig við höfum skorið niður. Það kom fram í andsvari sem ég átti við hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson áðan að búið er að skera niður hjá fólkinu sem vinnur á heilbrigðisstofnunum, konurnar sem eru með 150 þús. kr. á mánuði fá ekki lengur greitt fyrir að vinna kaffitíma eða matartíma. En á sama tíma leggur meiri hluti fjárlaganefndar og ríkisstjórnin fram tillögur um að búa til eitt starf sem kostar 10–11 milljónir á ársgrundvelli. Það eru því mjög margir, virðulegi forseti, sem ekki hafa þurft að taka þátt í þessum sársaukafulla niðurskurði. Þetta er ekki í samræmi við yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra um að allir eigi að taka á sig launalækkun. Í skýrslum Ríkisendurskoðunar hefur komið skýrt fram að þau áform ríkisstjórnarinnar hafa ekki gengið eftir. Það er fullt af fólki og einstaklingum sem hafa spilað frítt í þessu.

Síðan skulum við taka til viðbótar skattahækkanirnar sem ég nefndi upp á 152 milljarða. Þær ákvarðanir, þessar álögur, hafa á einungis tveimur árum, 2010 og 2011, hækkað skuldir heimilanna um 18 milljarða. Það hljóta allir að sjá hvers konar öngstræti við erum komin í með þessar skattahækkanir.

Við getum líka rætt annað sem ég er mjög ósáttur við og hef ekki leynt því í umræðunni þann tíma sem ég hef verið hér, það eru álögurnar þar sem ríkisstjórnin færir verkefni frá sjálfri sér yfir til sveitarfélaganna. Núna er búið taka tæpa 3 milljarða frá sveitarfélögunum inn í ríkissjóð. Þetta er nú eitt af því sem býr að baki þegar hæstv. ríkisstjórn státar sig af því að hafa náð miklum árangri. Tekjur hafa verið færðar frá sveitarfélögunum í landinu inn í ríkissjóð. Ég hef miklar áhyggjur af stöðu sveitarfélaganna í landinu, virðulegi forseti, líka í ljósi þess að nú liggur fyrir að tekjur sveitarfélaganna á næsta ári munu rýrna eða minnka um 7 milljarða. Það er ekki allt út af ákvörðunum hæstv. ríkisstjórnar, margir samverkandi þættir gera það að verkum að tekjur sveitarfélaganna munu rýrna um 7 milljarða á næsta ári. Ég hef af þessu verulegar áhyggjur.

Eitt er jákvætt sem kemur fram í breytingartillögum meiri hlutans — sumt er þar reyndar mjög jákvætt, ég skal viðurkenna það, annað ekki. Nú við 3. umr. á að bæta við 350 milljónum til að verðlagsbæta grunnlífeyrinn. Það er mjög jákvætt vegna þess að áform ríkisstjórnarinnar á vorþinginu 2009 gengu út á að skerða tekjur ellilífeyrisþega og öryrkja um 7 milljarða. Hvað gerðist síðan við afgreiðslu fjáraukalaga á árinu 2010? Skerðingarnar urðu 4 milljörðum meiri en var lagt upp með í frumvarpinu fyrir 2010. Það liggur því fyrir að sú skerðing sem gerð var hjá ellilífeyrisþegum og öryrkjum var mun áhrifameiri en gert var ráð fyrir. Það var líka staðfest í málflutningi þeirra fulltrúa sem komu fyrir fjárlaganefnd, eins og t.d. fulltrúa eldri borgara, sem bentu einmitt á að þessar skerðingar væru mjög miklar og með þeim hætti að við því yrði að bregðast.

Mig langar líka, virðulegi forseti, að ræða meira um þann ójöfnuð í niðurskurði sem ég nefndi. Tökum sem dæmi aðalskrifstofur ráðuneytanna, hver er niðurskurðurinn þar? Hæstv. forsætisráðherra gaf það út að skerða ætti um 9% hjá stjórnsýslustofnunum og eftirlitsstofnunum. Mér er mjög minnisstætt þegar fulltrúar forsætisráðuneytisins komu á fund og við spurðum um þetta, svörin voru mjög skýr. Hæstv. forsætisráðherra gerði kröfu um að niðurskurðurinn á aðalskrifstofu hennar yrði 9% og ekki yrði hætt fyrr en þeim niðurskurði væri náð.

Skoðum síðan aðrar aðalskrifstofur, aðalskrifstofur í sameinuðum ráðuneytum, t.d. í nýju innanríkisráðuneyti þar sem sameinast hafa dóms- og kirkjumálaráðuneytið og samgönguráðuneytið. Forsenda þess að fara í sameiningu á ráðuneytum á jú að vera að ná fram hagkvæmni í rekstri, það er eitt af meginmarkmiðunum fyrir utan margt annað. Tvær aðalskrifstofur eru settar saman í eina en samt er hagræðingarkrafan annars vegar 3,6% og hins vegar 4,8%, þó svo að hæstv. forsætisráðherra hafi gefið það út að stefnan væri 9% niðurskurður og unnið eftir því. Við gætum nefnt löggæsluna eða heilbrigðisstofnanirnar, þær verða að uppfylla kröfuna um að fara í þennan niðurskurð. En aðalskrifstofurnar, nei, þær bara gera það sem þeim hentar. Þetta er algjörlega óþolandi og ólíðandi. Þetta staðfestir í raun og veru að þó að hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórn gefi út einhver fyrirmæli er ekki einu sinni farið eftir þeim á skrifstofunum sem starfa þó beint undir ráðuneytunum, fólkinu við hliðina á þeim. Hvað er að marka svona? Það er ekkert að marka það.

Og meira um ójafnvægi í niðurskurði. Fullt af stofnunum hafa verklegar framkvæmdir á sinni könnu. Þær hafa komist upp með að skera niður verklegar framkvæmdir til að ná hagræðingarkröfunni en stjórnsýslan og stofnunin er alltaf sú sama. Eitt besta dæmið um þetta er Vegagerðin. Framkvæmdir í vegagerð hafa, eins og við þekkjum öll, verið skornar niður um marga, marga milljarða en samt hefur ekkert fækkað á aðalskrifstofu Vegagerðarinnar, ekki neitt. Búið er að fækka um tvö stöðugildi. Þau voru í 54,8, eru nú komin niður í 53. Samt er búið að skera niður allar framkvæmdir. Það verður að fara mjög vandlega yfir með hvaða hætti menn hafa brugðist við niðurskurðarkröfum ríkisstjórnarinnar. Margar sjúkrastofnanir og menntastofnanir sem eru kannski þær viðkvæmustu, sérstaklega sjúkrastofnanirnar, hafa engin svona verkfæri til að bregðast við. Þær verða bara að skera niður, lækka launin hjá konunum og reka þær úr vinnu á sama tíma og aðrir komast upp með þetta. Það er óþolandi og ólíðandi.

Virðulegi forseti. Mig langar að fara aðeins yfir það sem við sjálfstæðismenn höfum bent á og gerðum varðandi dulinn halla í fjárlögunum. Manni finnst eins og fólk vilji ekki horfast í augu við það. Til að mynda Byggðastofnun. Í fjárlögin fyrir árið 2011 er settur 1 milljarður til að rétta af eiginfjárhlutfall stofnunarinnar þó svo að fyrir liggi að þörf Byggðastofnunar sé 3,5 milljarðar. Það hefur komið skýrt fram í tvígang á fundi fjárlaganefndar, nú síðast fyrir nokkrum dögum. Þess vegna spyrjum við: Hvers vegna horfast menn ekki í augu við vandann og hækka þessa upphæð upp í 3,5 milljarða eins og þarf til að stofnunin geti haldið sig innan lögbundins eiginfjárhlutfalls? Í fjárlögunum er 1 milljarður en það vantar klárlega 2,5 milljarða.

Þetta er nákvæmlega það sama og gerðist við afgreiðslu fjárlaga í fyrra þegar við bentum á kröfuna sem gerð var á Landspítalann. Krafan var annars vegar um 2,8 milljarðar sem var uppsafnaður halli og hins vegar um niðurskurð upp á 3,2 milljarða. Við bentum á það trekk í trekk að það væri óraunhæf krafa að Landspítalinn gæti dregið saman á einu ári um 6 milljarða sem væri í raun og veru rúm 20% af heildarfjármagni spítalans. Á þetta var ekki hlustað og engu breytt. En hvað gerðist síðan á árinu 2010? Sem betur fer tókst forstöðumönnum og starfsfólki Landspítalans með miklu og góðu samhentu starfi að halda stofnuninni innan fjárlaga, þ.e. að hagræða í rekstri upp á 3,2 milljarða. Viðbrögð heilbrigðisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins voru þá að setja þennan 2,8 milljarða uppsafnaða halla í frost, eins og kallað er. Það er hins vegar ekkert sem heimilar að það sé gert. Það liggur ekki fyrir að það sé heimilt. Ekki eru til að mynda greiddir af þessu vextir til ríkissjóðs. Þetta er bara sett í frost og geymt og svo fjarar þetta út og verður afskrifað einhvern tíma í framtíðinni. Menn horfast því ekki alltaf í augu við vandann og það er mjög mikilvægt að við breytum þeim vinnubrögðum því að nóg höfum við gert af því að gera það ekki.

Til viðbótar er 700 milljóna hagræðingarkrafa inni í bótakerfinu en eftir er að semja við lífeyrissjóðina um hvernig það verði útfært. Enginn fyrirvari er samt gerður, sagt er bara að ná eigi 700 milljón kr. hagræðingu. Ekkert samkomulag er um það hvernig hún á að nást. Upplýsingarnar úr ráðuneytinu segja: Það eru kannski ekki miklir möguleikar á að öll þessi hagræðing náist. Samt er hér inni 700 milljóna hagræðing þó svo að við gerum okkur kannski grein fyrir því að við náum henni aldrei allri. Þetta er eitt af því sem býr til dulinn halla í fjárlögunum og allir ættu að gera sér grein fyrir en vilja einhvern veginn ekki horfast í augu við.

Virðulegi forseti. Mig langar að koma aðeins inn á samgönguframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru núna og við sáum í fréttum á undanförnum dögum.

Svo ég rifji það upp þá voru sett lög um það á vorþinginu að fara í svokallaðar einkaframkvæmdir í samgöngumálum, þ.e. annars vegar að stofna hlutafélag sem færi í framkvæmdir á Reykjanesbraut, Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi og hins vegar annað hlutafélag sem héldi utan um Vaðlaheiðargöng. Breytingin var sú að ríkið gat annars vegar átt allt hlutaféð í öðru hlutafélaginu, þ.e. því sem færi í stofnbrautirnar á suðvesturhorninu, og hins vegar allt að 51% eign í hlutafélaginu sem héldi utan um Vaðlaheiðargöngin.

Þegar málið var lagt fyrir og kynnt í þinginu var talað um eitt hlutafélag sem færi í samgönguframkvæmdirnar á suðvesturhorninu. Hver var hugsunin á bak við það? Hún var mjög skynsöm. Hún byggðist á því að menn ætluðu að fara í framkvæmdir á Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut, misjafnlega langt komnar framkvæmdir á viðkomandi stöðum, en forsendan fyrir því, sem ég taldi mjög skynsamlega, var að menn ætluðu að hafa eitt veggjald, u.þ.b. 160–180 kr. á hverja stofnbraut, þ.e. jafndýrt átti að vera að keyra til Hveragerðis eða Reykjanesbæjar eða upp í Borgarnes eða upp á Kjalarnes.

Síðan gerist það í meðförum málsins að upp úr slitnar í viðræðum við lífeyrissjóðina. Það var mjög dapurlegt því að alltaf var talað um að lífeyrissjóðirnir mundu fjármagna þetta og koma að þessu þó svo að ekki væri sett skilyrði um það í lögunum sem slíkum. Aðrir aðilar gátu alveg komið að þessu verkefni en menn gerðu sér mestar vonir um það að lífeyrissjóðirnir gerðu það og tækju þannig þátt í þeirri atvinnuuppbyggingu sem þyrfti að hefjast til að koma hjólum efnahagslífsins af stað. Það er mjög mikilvægt. Upp úr þessum viðræðum slitnaði einhverra hluta vegna. Við tókum síðan ákvörðun um það núna við lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir 3. umr. að setja 6 milljarða í þessar framkvæmdir.

Ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að mér finnst þetta mál hafa verið allt of, allt of lítið rætt. Ég geri mér ekki nákvæmlega grein fyrir því hvernig á að framkvæma þetta. Í fyrsta lagi finnst mér forsendan sem lagt var upp með í byrjun vera brostin því nú er talað um að leggja á kílómetragjald sem verður misjafnt á milli stofnbrautanna, það er annað en talað var um í upphafi. Í öðru lagi virðist vera sem lífeyrissjóðirnir hrökkvi frá verkefninu. Ég er dálítið hugsi yfir þessu vegna þess að varla geta verið nema tvær ástæður fyrir því að upp úr viðræðum slitnaði milli lífeyrissjóðanna og ríkisvaldsins um að fara í þessar framkvæmdir. Annars vegar gætu það verið vaxtakjörin á lánum sem lífeyrissjóðirnir vilja lána til ríkisins til að fara í framkvæmdirnar, menn gætu deilt um ávöxtunarkröfuna. Hins vegar gæti það verið viðskiptamódelið, þ.e. að lífeyrissjóðirnir hafi ekki haft trú á viðskiptamódeli okkar.

Á fundi fjárlaganefndar var upplýst að vaxtakjörin væru ástæðan fyrir því að upp úr viðræðunum hefði slitnað, lífeyrissjóðirnir gerðu hærri ávöxtunarkröfu. Þá skulum við taka næsta skref, hvað gerist þá? Ríkið gefur út ríkisskuldabréf upp á 6 milljarða eins og verið er að samþykkja hér og fer í framkvæmdirnar. Hver skyldi nú kaupa þetta ríkisskuldabréf? Mér dettur fljótlega einn aðili í hug, lífeyrissjóðirnir, þeir munu kaupa það. Ég er ekki alveg búinn að ná samhenginu í því af hverju lífeyrissjóðirnir gátu þá ekki fjármagnað þetta beint, í staðinn fyrir að kaupa hugsanlega ríkisskuldabréfið frá ríkissjóði, því að ávöxtunarkrafan ætti að vera sú sama. Ég er dálítið hugsi yfir því hvort viðskiptamódelið hafi eitthvað verið að trufla lífeyrissjóðina í þessu máli. Ég tel mjög mikilvægt að farið verði heildstætt yfir þetta, sérstaklega í hv. samgöngunefnd og fjárlaganefnd, svo við getum áttað okkur á hvað hér er á ferðinni.

Ég ræddi það í upphafi ræðu minnar, virðulegi forseti, og fór mjög vel yfir hvernig sú hagræðing sem menn hæla sér mjög mikið af hefur náðst, og ég geri ekki lítið úr henni, árangur hefur náðst í ríkisfjármálunum svo að ég ítreki það. Ég fór hins vegar yfir það í ræðu minni hvernig það var gert. Það var gert með því að hækka skatta. Við höfum ekki farið í mikinn niðurskurð — sums staðar reyndar, á sumum stöðum hafa heilbrigðisstofnanir þurft að fara í blóðugan niðurskurð — og enn þá er fullt af gæluverkefnum inni og verið er að bæta líka í núna. Mér finnst við því ekki vera búin að ná tökum á því sem við ætluðum okkur.

Við sjálfstæðismenn höfum hins vegar talað fyrir því að fara nýja leið. Því miður hefur ekki náðst að klára umræðuna um þingsályktunartillöguna sem við lögðum fram og eiga efnislega umræðu um hana. Ég held að það sé alltaf mikilvægt fyrir okkur, sama hvar maður stendur í flokki og hvort sem við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins teljum þetta vera eina réttu lausnina eða ekki, að eiga málefnalegar umræður við fólk sem er á annarri skoðun því að ekkert er sjálfgefið. Það er ekki þannig að við höfum alltaf rétt fyrir okkur og ekki alltaf rangt fyrir okkur. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn eigi efnislegar og gagnlegar umræður og ég er þeirrar skoðunar að þegar málefnalegar umræður fara fram um einhverja ákveðna hluti sé það vísasti vegurinn til að komast að skynsamlegustu niðurstöðunni. Þá verðum við líka að bera virðingu fyrir skoðunum annarra og fyrst og fremst að trúa því að við höfum ekki alltaf rétt fyrir okkur.

Við höfum lagt til alveg nýja sýn á þessi mál og því miður teljum við að núna bendi margt til þess að mikið kul sé komið í hagkerfið. Við þurfum ekki annað en að taka fjáraukalögin sem við samþykktum fyrir nokkrum dögum. Þar dregst tekjuskattur einstaklinga saman um 5,1 milljarð þó svo að atvinnuleysi hafi minnkað og sé minna en ráð var fyrir gert. Fjárfesting dregst saman um 25,5% og er þá orðin minnsta fjárfesting í sögu lýðveldistímans. Það bendir því mjög margt til þess að við séum komin langt út fyrir þolmörk í skattpíningu. Ég tel, virðulegi forseti, að við þurfum að breyta um kúrs.

Svo að ég taki bara tvær stærstu tillögurnar í þingsályktunartillögu þingflokks Sjálfstæðisflokksins þá höfum við í fyrsta lagi lagt til að taka tekjurnar af séreignarsparnaðinum. Ég er alltaf að verða sannfærðari og sannfærðari um að rétt sé að gera það vegna þess að það muni skila ríkissjóði 80 milljörðum. Niðurstaðan af þeim breytingum sem við leggjum til er sú að afkoma ríkissjóðs verður betri um 40 milljarða. Þetta mun engin áhrif hafa á fólkið sem á þennan séreignarsparnað af því að hér er eingöngu átt við séreignarsparnaðinn. Því til viðbótar munu sveitarfélögin fá 40 milljarða kr. út úr þessari aðgerð. Við erum nú þegar að færa upp undir 3 milljarða frá sveitarfélögunum til ríkisins og menn vilja ekki horfast í augu við það. Ég hef varað við því, virðulegi forseti, að ef það mun gerast að við fáum hugsanlega hingað inn stór vandamál frá sveitarfélögunum, sem ég vona að verði ekki, mun ég rifja upp allar þær ábendingar og viðvörunarorð sem ég haft uppi varðandi sveitarfélögin. Við setjum það skilyrði að sveitarfélögin megi ekki nýta þessa peninga til að fara í framkvæmdir. Þau verða nefnilega að greiða niður skuldir og ná niður vöxtum því að þau mörg hver eiga við sama vandamálið að etja og ríkissjóður. Það er gríðarlega mikilvægt að við náum að gera ríkissjóð sjálfbæran eða ná jöfnuði í ríkisfjármálum.

Gleymum ekki því að þegar við höfum náð jöfnuði í ríkisfjármálum 2013 eins og við stefnum að, þá þurfum við að eiga fyrir rekstri og vöxtum. Þá eigum við eftir að borga niður lánin, við skulum ekki gleyma því. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn snúi ekki af þeirri braut að ná jöfnuði í ríkisfjármálum þó okkur greini á um hvernig eigi að gera það. Það er það mikilvægasta sem við þurfum að gera því að annars lendum við í algjöru öngstræti.

Í öðru lagi leggjum við til til viðbótar að auka fiskveiðiheimildir. Á síðasta þingi talaði ég mig margsinnis hásan um að bæta við fiskveiðiheimildir. Þá færði ég rök fyrir því að ef við bættum 40 þús. tonnum við þorskkvótann mundum við samt byggja upp þorskstofninn. Hann var áætlaður 702 þús. tonn og samkvæmt aflareglunni var markmiðið að byggja hann upp í 762 þús. tonn. Hefðum við bætt 40 þús. tonnum við og skapað þær tekjur fyrir ríkissjóð sem því hefði fylgt, hefðum við samkvæmt vísindalegum gögnum Hafrannsóknastofnunar byggt hann úr 702 þús. tonnum upp í 718 þús. tonn. Og hvað var það sem ég benti á í mörgum ræðum? Eins og margir þeir sem starfa á vettvangi bentu líka á, sjómenn, var þorskstofninn miklu sterkari en ráð var fyrir gert í tillögum Hafrannsóknastofnunar. Samt miðuðum við eingöngu við vísindalegar rannsóknir Hafrannsóknastofnunar. Síðan kom nefnilega í ljós, þegar Hafrannsóknastofnun fór aftur í rallið í vetur og endurskoðaði áætlun sína um að byggja þorskstofninn upp í 762 þús. tonn, að stofninn var orðinn 846 þús. tonn. Ég spyr: Ef við þurfum ekki störf og tekjur núna hvenær þurfum við það þá? Því miður eru markaðsmálin ekki eins góð núna og þau voru fyrir ári þannig að ég tel að það hafi verið mjög mikill afleikur að hafa ekki bætt við veiðiheimildir. Ég hef reyndar aldrei skilið af hverju það var ekki gert.

Virðulegi forseti. Þessu til viðbótar er mjög mikilvægt, til að ná tökum á ríkisfjármálunum, að breyta vinnunni við fjárlagagerðina Í fjárlaganefndinni er mjög lausnamiðað fólk og þar ríkir gott samstarf og menn þurfa að setjast niður og breyta vinnubrögðunum við fjárlögin. Nú þurfum við nefnilega að vinna saman að því að finna allar þær matarholur sem enn eru inni í kerfinu og menn hafa misjafna sýn á það. Mér finnst vera bruðl hér og öðrum þar svo við verðum að setjast yfir það og reyna að finna allar matarholur og skera af þann lúxus sem er víða og sem við erum enn að bæta í, algjörlega óþörf verkefni.

Síðan er líka mjög mikilvægt að við látum allar markaðar tekjur fara inn í ríkissjóð. Þegar stofnanir hafa ekki markaðan tekjustofn geta þær bara þanist út eins og þeim dettur í hug. Í sumum tilfellum hafa þær jafnvel sjálfsvald um að hækka gjöldin til að þenja út starfsemi stofnunarinnar. Allar markaðar tekjur eiga að fara í ríkissjóð og Alþingi á að ákveða fjárlagaramma viðkomandi stofnana. Þetta tel ég líka vera mjög mikilvægt.

Að lokum, forseti, vil ég þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem eiga sæti í fjárlaganefnd fyrir einstaklega gott samstarf í nefndinni. Ég vil líka nota tækifærið til að þakka því góða starfsfólki sem vinnur á nefndasviði Alþingis og sérstaklega því sem vinnur hjá fjárlaganefnd og vinnur að sjálfsögðu mest með okkur sem þar störfum. Það fólk á þakkir skildar fyrir einstaka lipurð og góð samskipti við nefndina.