139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæsta upphæðin er 8,5 milljarðar. Það er lyfjakostnaður. Lækniskostnaður er 4,9 milljarðar og lyf með S-merkingu eru 4,3. Síðan eru hjálpartæki, tannlækningar, þjálfun o.s.frv. Ég áttaði mig ekki alveg á svari hv. þingmanns: Er það svo að menn ætli að ná öllum 3.000 milljónunum, sem hafa verið tilgreindar og komið fram í minnisblaði sem fór bæði fyrir hv. fjárlaganefnd og hv. heilbrigðisnefnd undir yfirskriftinni Áætlun Sjúkratrygginga Íslands um útgjöld við sjúkratryggingar árið 2011 í samanburði við fjárlagafrumvarp 2011 — hérna er þetta allt saman sundurgreint þannig að allar upplýsingar liggja fyrir. Er það svo að menn ætli að ná öllum 3.000 milljónunum í gegnum breytta samninga við sérfræðilækna?

Ég vek athygli á því að nú er gert ráð fyrir því að sú upphæð sem sett er í það sé um 4,9 milljarðar. Ætli það yrði þá ekki lækkun á lækniskostnaði um 60%, eitthvað svoleiðis? Það er ágætt ef svo væri. Hvort ætla menn þá að ná þessu fram með því að fækka verulega aðgerðum eða reyna að ná því fram með lækkun taxta? Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég á svolítið erfitt með að átta mig á því eða trúa að menn ætli bara að ná þessu niður þarna, það tel ég að sé fullkomlega útilokað. Það væri ágætt ef hv. þingmaður mundi skýra það út fyrir okkur.