139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:00]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður las upp. Samkvæmt gögnum Sjúkratrygginga Íslands er kostnaðurinn mestur vegna greiðslna til sérfræðinga og þar hljóta því að liggja mestu möguleikarnir á að ná inn einhverju af þessum kostnaði. (Gripið fram í.) Þetta er uppsafnaður halli tveggja ára (Gripið fram í: Nei.) og að einhverju leyti hljóta Sjúkratryggingar Íslands að reyna að taka á þeim halla bæði í gegnum þessa samninga sem fyrirhugaðir eru og í gegnum lyfjakostnaðinn.

Varðandi lyfjakostnaðinn eru þar mörg tækifæri eða möguleikar, getum við sagt frekar, að ná lækkun á almennum lyfjum með útboði o.s.frv., ég ætla ekki að fara sérstaklega yfir það og eins eru líka möguleikar í dýrari lyfjum til frekari lækkunar. Þetta eru stóru tölurnar, lyfjakostnaðurinn og sérfræðilæknarnir.

Auðvitað verður svo að koma í ljós hvernig þessir samningar ganga og útboð og annað hvað varðar lyfin. Það er ekkert hægt að segja um það fyrir fram og gefa þar með upp spilin hvað varðar samningagerð og útboð á því sviði. En það er feikilegt verkefni sem stofnunin stendur frammi fyrir, að reyna að vinna upp hagræðingarkröfur bæði fyrir 2009 og þetta ár og fara inn í næsta ár með hagræðingarkröfur samsvarandi öðrum stofnunum, það er gífurlegur vandi. Þarna sat allt fast vegna þess að ekki var hægt að hreyfa við samningum við sérfræðinga nema að þessu leyti, með þeim 9% sem þeir gáfu eftir. Verkefni Sjúkratrygginga Íslands er mjög víðfeðmt og stórt, ég ætla ekki að draga dul á það.