139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:02]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil gjarnan fá að heyra álit hv. þm. Þuríðar Backman á vinnunni sem hefur farið fram í fjárlaganefnd. Venjan er sú þegar frumvarp kemur inn, fjárlagafrumvarpið, að tekinn er heilmikill pólitískur slagur um það. Gerðar er breytingar á því fyrir 2. umr., þá koma þessar stóru breytingar yfirleitt inn. Það er stóri slagurinn.

Síðan þegar búið er að taka þann slag fer málið til 3. umr. Þá eru yfirleitt ekki gerðar miklar breytingar á frumvarpinu. Reyndar er dæmi um að það hafi ekki verið gerðar neinar breytingar. Einhverjar breytingar eru oftast gerðar en þó held ég ekki svona miklar eins og núna. Ég vil gjarnan heyra hvort hv. þingmaður eða fjárlaganefnd hefur skoðað það í sögulegu ljósi hvort vinnubrögðin núna eru algjörlega úr takti við vinnubrögð fyrri ára. Sú er hér stendur hefur tilfinningu fyrir því að það gæti verið. Það sem hefur átt sér stað að þessu sinni er eins og það hafi verið tveir stórir slagir. Fyrst er stóri slagurinn áður en 2. umr. lauk og við greiddum atkvæði um breytingartillögur. Við drógum m.a. verulega úr hagræðingu á heilbrigðisstofnunum eins og við fórum yfir fyrir stuttu síðan. Síðan er tekinn annar slagur og þá er eins og allt sé hriplekt í fjárlaganefndinni. Það koma inn alls konar tillögur, stórar og smáar. Margar smáar.

Ég vil ekki nota orðið „dekurverkefni“, þetta eru allt góð verkefni í sjálfu sér en það er eins og fjárlagafrumvarpið sé hriplekt. Ég vil gjarnan spyrja hvort hv. þingmaður deili þessum skoðunum með mér. Af hverju er þetta? Er það af því að fjárlagafrumvarpið var svona hryllilega illa unnið í upphafi? Er þetta af því að verið er að dekstra einhverja þingmenn eða hvað er hér á ferðinni? Er þetta agaleysi? Hvað er hér á ferðinni?