139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:04]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég er að lýsa eigin skoðunum núna, hvernig ég upplifi þetta.

Ef við horfum á heilbrigðisþjónustuna og þáttinn sem sneri að heilbrigðisráðuneytinu var krafan um 44,7 milljarðar kr. Það var vitað fyrir fram að það yrði erfitt að verða við þessari hagræðingarkröfu. Það voru margar stofnanir, ég mundi segja allar stofnanir, sem voru vanbúnar tækjum og búnaði. Við þekkjum það í gegnum árin að það er varla fjárfest í tæki öðruvísi en það séu líknarfélög sem gefa þau.

Landspítalinn varð allra verst úti hvað varðaði tækjabúnað, viðhald og annað. Þegar við horfum til þess að stofnanirnar voru í raun og veru vanbúnar og margar máttu við litlu, að fá í þriðja sinn á sig þetta miklar niðurskurðarkröfur. Það sem var gert núna var að hlífa Landspítalanum og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri sem höfðu fengið á sig mestu kröfurnar fyrri tvö skiptin. Menn sögðu: Þetta gengur ekki. Það var vitað fyrir fram þannig að þar liggur hinn fyrri póstur að bregðast svona við.

Þegar við förum síðan í alla liði fjárlaganna þá þurfa þetta ekkert alltaf að vera svo háar upphæðir en þetta getur verið mjög viðkvæm starfsemi. Það má því segja að fjárlagafrumvarpið hafi orðið hriplekt en fyrir það að við sáum fram á að hægt var að leyfa sér slaka. Vegna þess að árið í ár hefur verið okkur hagstæðara en spár höfðu gert ráð fyrir gátum við leyft okkur að slaka á og það var gert á þessum sviðum.