139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:55]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fór yfir fjárlagafrumvarpið eins og það stendur núna við 3. umr. og kom þar víða við. Við höfum ekki alltaf sömu sýn á hlutina, en ég hef eina spurningu til þingmannsins um Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík. Hún nefndi niðurskurðinn og þær breytingar sem þar er verið að gera sem og stóriðjuframkvæmdir á Bakka. Ég sé ekkert í kortunum sem bendir til þess að farið verði í miklar framkvæmdir á næsta ári sem mundu krefjast endurskoðunar eða uppbyggingar á heilbrigðisstofnuninni, en þó gætu Vaðlaheiðargöng farið í gang og þá er stutt til Akureyrar. Einhvern tímann kemur að því að það verður farið í gang með annaðhvort framkvæmdir í stóriðju eða annars konar uppbyggingu tengda orkunýtingu fyrir norðan sem er vel, en ég sé ekki að það sé verið að brjóta svo niður þessa stofnun að hún geti ekki verið tilbúin þegar af framkvæmdum verður og að þá verði ekki tekið tillit til þess við undirbúning framkvæmda að stofnuninni verði gert kleift að mæta þeirri uppbyggingu og því álagi. Við verðum þá að læra af þeirri reynslu sem við eigum að búa að varðandi Heilbrigðisstofnun Austurlands sem var vanbúin til að taka við þeim miklu framkvæmdum fyrir austan og var látin sitja uppi með þær í þrjú ár.