139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja að þegar ég vitnaði í hv. þingmann var ég ekki út af fyrir sig að gagnrýna það sem hún hafði sagt. Ég tók eftir því þegar hún flutti þessa ræðu á sínum tíma að hún notaði orðin „að líða fyrir“ og þetta er ekki gagnrýni á að hún segði það, heldur hugsaði ég hvílík misskipting það væri ef eitthvert kjördæmi gæti liðið fyrir það að vera nálægt höfuðborginni. Það lýsir ástandinu að fólk sem þekkir vel til málanna komist að orði eins og hv. þingmaður gerir.

Nei, ég er sammála því að auðvitað er óviðunandi að einungis 10% fari á svæðið þar sem umferðin er mest og fólkið flest. Það er líka alveg ljóst að þær skrýtnu hugmyndir sem hún kom sjálf inn á í ræðu sinni hér áðan, hugmyndir úr einhverjum vinnuplöggum sem lítið er að marka en hafa verið á sveimi undanfarna daga, um eiginlega að byrgja höfuðborgina inni og allar nágrannasveitirnar með tiltölulega háum veggjöldum, er vinnuhugmynd sem á alveg eftir að tala nánar um.