139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er fegin að heyra þetta og þakka það svar að þetta framlag til suðvesturhornsins í vegaframkvæmdum sé óviðunandi að mati hv. þingmanns.

Hæstv. dómsmála- og samgönguráðherra var hins vegar á öndverðum meiði. Þegar ég spurði hann að þessu sagði hann að hann missti ekki svefn yfir þessu framlagi sem kæmi hingað á suðvesturhornið. Samt barðist m.a. forsætisráðherra sem þingmaður í stjórnarandstöðu sérstaklega fyrir því að það mark sem var komið upp í 20% yrði hækkað eitthvað. Við erum ekkert endilega að biðja um algjört jafnræði. Við erum að biðja um sanngjarna meðhöndlun á suðvesturhorninu þegar kemur að samgönguframkvæmdum þannig að ég þakka fyrir þetta svar.

Ég spyr núna hv. þingmann um risamál að mínu mati sem ég ætlaði að koma inn á í ræðu minni áðan … (Gripið fram í.) Fáir, það hefur bara enginn komið inn á það í neinni ræðu nema hv. þingmaður snerti aðeins á því sem heitir peningamálastefna. Um hana getum við haldið margar ræður. Ég spyr hv. þingmann: Hver er peningamálastefnan til lengri tíma af hálfu ríkisstjórnarinnar? Er stefna ríkisstjórnarinnar að halda sig við krónuna? Er stefna ríkisstjórnarinnar að segja: Gott og vel, við erum að stefna að því að taka upp evruna í gegnum aðildarviðræðurnar og ef og þegar þetta verður samþykkt þegar þar að kemur tökum við upp evru? Ef þessu verður hafnað, hver er stefna ríkisstjórnarinnar við það að búa til valkosti og teikna upp þessar myndir sem við erum að biðja um að séu teiknaðar á svo mikilvægum sviðum sem heilbrigðismála, varnarmála og menntamála? Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í peningamálum? Hvert er sjónarmið hv. þingmanns sem ég veit að hefur ákveðnar skoðanir þegar kemur að peningamálastefnunni og krónunni sem slíkri? Það er hún sem tengist fjárlagafrumvarpinu með afgerandi hætti og markar m.a. þá stóru mynd til lengri tíma sem fjárlögunum er ætla að skapa.