139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[20:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það fjárlagafrumvarp sem nú er komið til lokaafgreiðslu hér við 3. umr. hefur fengið ýmiss konar lýsingarorð þegar menn hafa reynt að draga fram einhverja hnitmiðaða lýsingu á því sem þetta fjárlagafrumvarp felur í sér. Stjórnarliðar hafa verið óþreytandi að segja okkur að það fjárlagafrumvarp sem hér er til umfjöllunar sé það erfiðasta sem nokkurn tímann hafi ratað inn í þingsalina. Ég er ekki alveg viss um það, örugglega er hægt að horfa til baka og bera saman ýmis fjárlög sem hafa verið til meðhöndlunar á Alþingi sem a.m.k. eru jafnerfið og það sem hér er um að ræða. Þegar grannt er skoðað hygg ég að þetta fjárlagafrumvarp sé ekkert einsdæmi. Sannarlega erum við að takast á við erfið viðfangsefni í þessu fjárlagafrumvarpi, það dylst auðvitað engum. Við hrun fjármálakerfisins á haustdögum 2008 breyttust allar forsendur. Þá var tekin sú ákvörðun af hálfu þáverandi ríkisstjórnar að taka upp samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um endurreisn efnahagslífsins sem var mjög mikið gæfuspor. Það er eitt af því sem þó má færa þessari ríkisstjórn til tekna að hún hefur nokkurn veginn haldið sig við efnahagsprógrammið sem þar var lagt upp með. Það er ein ástæðan fyrir því að við erum í þessum sporum hér í dag. Í því efnahagsprógrammi sem lagt var af stað með haustið 2008 voru málin hugsuð þannig að menn gerðu sér grein fyrir því að hrunið mundi fyrst og fremst koma fram á árinu 2009, þá mundi fallið í þjóðarframleiðslunni birtast okkur með miklum þunga og þess vegna var það meðvituð ákvörðun að draga úr aðhaldsaðgerðunum í ríkisfjármálunum það haustið til að dýpka síður kreppuna sem annars hefði blasað við okkur.

Það sem gerðist á árinu 2009 var býsna merkilegt. Gleymum því ekki að þegar þessi efnahagsáætlun var sett saman haustið 2008 og við vorum síðan að reyna að átta okkur á þessu í ársbyrjun 2009 var það mat þeirra sem að málum stóðu að fallið í þjóðartekjunum á árinu 2009 yrði hér um bil 10%. Sem betur fer gekk það ekki eftir. Sem betur fer varð fallið í þjóðartekjunum á milli 6 og 7%, það er svo sem nógu erfitt en engu að síður himinhár munur á milli þess að fallið sé milli 9 og 10% og milli 6 og 7%.

Það er enginn vafi á því að sú ákvörðun sem tekin var á haustdögum 2008 að hafa aðhaldsstigið heldur minna á árinu 2009 en ella hefði orðið var hárrétt. Hún var lykillinn að því að fallið í þjóðartekjunum varð minna en það hefði annars orðið. Þetta hefði að sjálfsögðu átt að gera það að verkum að það hefði verið auðveldara að fást við málin á árinu 2010 en við ætluðum haustið 2008, en því miður er það ekki þannig. Þar hlýtur ríkisstjórnin að horfa í eigin barm. Hún er auðvitað að fást við afleiðingar sinnar eigin stjórnarstefnu í því fjárlagafrumvarpi sem við ræðum núna. Hæstv. fjármálaráðherra sagði þegar hann fylgdi þessu máli úr hlaði að hér sæjum við glitta í sjálf kreppufjárlögin. Vel má vera að það megi kalla þessi fjárlög kreppufjárlög, en sú kreppa er ekki bara til komin vegna hrunsins í bankakerfinu árið 2008 heldur líka vegna þeirrar stjórnarstefnu sem hefur verið fylgt markvisst frá því að fyrst minnihlutastjórn og síðan meirihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar tók við völdum í ársbyrjun 2009.

Það er ekki mjög stórmannlegt að kenna alltaf öðrum um og sannarlega ætla ég ekki að varpa ábyrgðinni af fyrri ríkisstjórn í þeim mæli sem henni ber slík ábyrgð, en þeir sem nú sitja við stjórnvölinn verða líka að axla þá ábyrgð sem þeim ber í þessum efnum.

Við undirbúning að fjárlagafrumvarpi sem svo er lýst af hálfu stjórnarliða að þetta sé erfiðasta fjárlagafrumvarp sem nokkur ríkisstjórn og Alþingi hafi nokkru sinni staðið frammi fyrir hefði maður ætlað að menn mundu vanda sig mjög mikið, það yrði t.d. farið rækilega yfir allar forsendur fjárlaganna með fulltrúum þingflokkanna, það yrði farið yfir það mjög rækilega lið fyrir lið, a.m.k. í meginatriðum, hvernig aðhaldsaðgerðunum yrði beitt, hvernig skattaaðgerðirnar ættu að birtast o.s.frv. Við flestar aðstæður hefði það t.d. verið sjálfsagður hlutur að menn áttuðu sig á því í hvaða mæli niðurskurður í heilbrigðiskerfinu kæmi niður, hvar það mundi birtast í einstökum heilbrigðisstofnunum o.s.frv., hvar áherslurnar væru um niðurskurð í einstökum málaflokkum, menntamála, heilbrigðismála o.s.frv., og að stjórnarliðar kæmu inn í þennan erfiða slag sem fram undan væri á haustinu 2010 sæmilega samstæðir.

Maður hefði getað ímyndað sér að við undirbúning málsins hefðu allir hlutir verið gaumgæfðir þannig að menn gengju nokkurn veginn í takt og gerðu sér grein fyrir því við hvað væri hér að glíma. En var þetta svona? Aldeilis ekki.

Fjárlagafrumvarpið var lagt fram og lagt á borð okkar þingmanna föstudaginn 1. október nákvæmlega kl. 4. Þá birtist okkur ýmiss konar stefnumörkun í mörgum málaflokkum, m.a. í heilbrigðismálum. Það liðu ekki margir dagar þangað til við fundum viðbrögðin úti í þjóðfélaginu og þau lýstu miklum sárindum, vonbrigðum og reiði fólks sem fannst rækilega á sér brotið. Þá var boðað til fjölda funda úti um allt land og á þeim ferli sem ég hef átt sem þingmaður minnist ég þess ekki að slík fjöldahreyfing hafi myndast á landsbyggðinni eins og gerðist núna á haustdögum. Þarna áttu sér ekki stað venjuleg mótmæli. Þarna reis upp venjulegt fólk vegna þess að því ofbauð þessi stefnumörkun sem ríkisstjórnin henti framan í fólk og henti inn á borð þingmanna undirbúningslaust á haustdögum, núna 1. október sl. (Gripið fram í: Það var ekki komið fram …) Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt hér á borð þingmanna birtist þessi stefnumótun okkur.

Það má hins vegar segja um stjórnarliða að þeir voru fljótir að bregðast við. Það var ekki liðin vika frá því að fjárlagafrumvarpið var komið fram þar til fyrir lágu yfirlýsingar svo margra stjórnarliða að það var alveg ljóst mál að ríkisstjórnin hafði ekki lengur vald á því fjárlagafrumvarpi sem hún hafði lagt fram. Það var augljóst að ekki hafði verið leitað eftir rækilegu umboði einstakra þingmanna stjórnarliðsins fyrir því fjárlagafrumvarpi sem hér er nú til umfjöllunar. Þetta kom fram á fundi eftir fund þar sem stjórnarliðar sögðu okkur frá því að þeir væru bara algjörlega bláeygir, þeir hefðu bara ekki haft hugmynd um það sem hefði staðið í þessu mikla gula plaggi sem lagt var á borð okkar þingmanna. Þeir höfðu bara ekki gert sér í hugarlund að ætlunin með þessu fjárlagafrumvarpi væri t.d. að leggja af sjúkrahúsþjónustu meira og minna á Húsavík eða Sauðárkróki eða skerða sjúkradeildarþjónustuna á Ísafirði eða draga mjög verulega úr starfsemi bæði sjúkrahússins á Blönduósi og Patreksfirði svo ég taki dæmi úr mínu kjördæmi þar sem ég þekki til og það sem ég heyrði af vörum annarra þingmanna, þingmanna stjórnarliðsins þar sem þetta kom fram. Maður spyr sig: Hvar voru þessir þingmenn stjórnarflokkanna eiginlega? Sváfu þeir á verðinum? Var þeim ekki gert kunnugt að það væri ætlunin að leggja fram þetta erfiða fjárlagafrumvarp, erfiðasta fjárlagafrumvarp Íslandssögunnar að sögn fjármálaráðherra, og var þeim ekki ljóst að það mundi einhvers staðar koma við? Var þeim það ekki ljóst þegar þeir heyrðu t.d. útlistanir á fjárlagaramma heilbrigðisráðuneytisins að það mundi einhvers staðar koma niður? Spurðu þeir ekki einfaldra spurninga um hvar þetta ætti allt saman að birtast, hvar niðurskurðurinn ætti að koma? Héldu menn kannski að niðurskurður í heilbrigðismálum upp á marga milljarða króna kæmi hvergi nokkurs staðar við eða yrði a.m.k. ekki til þess að hrófla við heilbrigðisstofnunum í þeirra eigin kjördæmum?

Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að þetta var mér ný lífsreynsla. Ég hef aldrei vitað það og hef nú starfað í stjórnarliðinu um 18 ára skeið að nokkurn tímann hafi það gerst að fjárlagafrumvarp hafi verið lagt fram með þeim hætti að þingmenn almennt í stjórnarliðinu hafi ekki haft hugmynd um hvað í fjárlagafrumvarpinu stæði. Getur það verið að með tölurnar úr fjárlagafrumvarpinu hafi verið farið eins og eitthvert mannsmorð, einhverjar tölur sem enginn mátti vita um? Getur það verið að helstu stærðir fjárlagafrumvarpsins hafi bara verið ríkisleyndarmál sem ekki máttu spyrjast út úr Stjórnarráðinu og inn í þingflokksherbergi stjórnarliðanna? Getur það verið að helstu stærðir fjárlagafrumvarpsins sjálfs hafi verið bara á fárra manna vitorði og farið hafi verið með þetta eins og ríkisleyndarmál sem ekki nokkur maður mátti komast að? Þá ber nýrra við. Það er ýmislegt annað sem spyrst út úr herbúðum stjórnarliðanna og þess vegna hefði maður ætlað að upplýsingar eins og þessar a.m.k. mundu rata inn fyrir hlustir og inn í eyru stjórnarliða, þingmannanna sem ætlað var að bera ábyrgð á þessu.

Fjárlagafrumvarp er eðli málsins samkvæmt frumvarp af þeim toganum að það verður að ætlast til þess að það sé lagt fram, ekki bara á ábyrgð eins fjármálaráðherra eða ábyrgð einnar ríkisstjórnar heldur á ábyrgð stjórnarflokkanna sjálfra. Þeir hljóta að hafa kvittað upp á það að þeir mundu skuldbinda sig til að fylgja frumvarpinu eftir þó að vitaskuld hafi Alþingi fullt vald á málinu þegar það er komið til þingsins. Og vitaskuld gerir Alþingi sínar breytingar. Það sem vekur athygli og miklar spurningar í þessu sambandi er hversu munaðarlaust þetta fjárlagafrumvarp var. Ég man ekki eftir því að hafa nokkurn tímann heyrt um fjárlagafrumvarp sem helst enginn virtist vilja kannast við. Það voru einstök hraustmenni sem stigu fram og sögðu: Ég skal verja þetta mál, en það var nánast upp talið. Þeir voru ekki mjög margir, teljandi á fingrum annarrar handar minnir mig, sem komu fram og sögðu: Heyrðu, þetta er það sem við ætlum að gera, þetta er fjárlagafrumvarpið sem við viljum sjá, þetta er það sem ríkisstjórnin ætlar að standa og falla með. Þeir voru ekki ýkja margir sem sögðu það. Mig minnir að í einhverjum orðaskiptum sem ég átti við hæstv. fjármálaráðherra hafi hann sagt í einhverju spaugi: Ja, ætli það sé nema einn sem styður fjárlagafrumvarpið. Ég geri ráð fyrir að þetta hafi verið einhvers konar spaug af hálfu hæstv. ráðherra en öllu gamni fylgir nokkur alvara. Það er dálítil alvara í því þegar það blasir við okkur að fjárlagafrumvarpið kemur til þingsins og enginn vill eigna sér krógann, síst af öllu a.m.k. þeir þingmenn sem ætlast var til að ýttu á græna takkann í lok dagsins þegar fjárlagafrumvarpið yrði afgreitt.

Getur t.d. verið að þingmenn stjórnarflokkanna hafi virkilega ekki vitað að til stæði að gerbreyta heilbrigðisstefnunni? Hvernig sem á málin er litið og þó að það hafi ekki verið skrifað inn í greinargerð fjárlagafrumvarpsins blasti það bara við við að lesa tölurnar í fjárlagafrumvarpinu að það var í raun og veru verið að móta nýja heilbrigðisstefnu. Þetta var ný heilbrigðisstefna. Það var verið að taka ákvörðun um að færa niður þjónustustigið á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Þetta blasti við öllum og þetta var auðvitað það sem fólkið úti á landsbyggðinni sá um leið og það heyrði þessar tölur. Hið sama má segja um þær heilbrigðisstofnanir sem áttu við að búa. Þær höfðu að sjálfsögðu ekki verið búnar undir þetta. Menn höfðu að vísu verið kallaðir til í kurteisisskyni til að tilkynna þeim niðurstöðuna, ekki til að eiga við þá samráð, ekki til að ræða við þá um hvort þetta væri gerlegt, ekki til að ræða við þá um það hvort þetta væri skynsamleg stefna í heilbrigðismálum heldur bara til að tilkynna þeim upp á kurt og pí að svona mundi heilbrigðisstefnan líta út og starfsemi heilbrigðisstofnana úti á landsbyggðinni þegar fjárlagafrumvarpið yrði samþykkt á aðventunni. Svona var staðan eins og hún blasti við okkur í október.

Þetta hlýtur að verða ríkisstjórninni mikil lexía. Það sem gerðist í framhaldinu var að ríkisstjórnin var gerð afturreka með þetta mál. Þetta var hennar helsta stefnumál í þessu fjárlagafrumvarpi. Maður sá fyrst og fremst glitta í tennurnar í sambandi við niðurskurðinn í fjárlagafrumvarpinu á þessu sviði og niðurstaðan er sú sem við sjáum hérna, það er smám saman verið að falla frá þessari stefnumótun, eða hvað, fyrst með stóru stökki við 2. umr. og síðan er enn þá verið að gera breytingar á fjárlagafrumvarpinu hvað heilbrigðismálin varðar hér við 3. umr. Við sjáum t.d. að hér við 3. umr. eru gerðar breytingartillögur upp á tæpar 240 millj. kr. til hækkunar til að bregðast við þeirri óánægju sem hefur ríkt.

Við vitum að í stjórnarflokkunum, a.m.k. öðrum þeirra, hefur verið virk stjórnarandstaða gegn þessu fjárlagafrumvarpi. Menn hafa haft í hótunum um að koma með sjálfstæðar breytingartillögur og einn þingmaður hefur nú þegar lýst því yfir að hún styðji ekki þetta fjárlagafrumvarp. Ræður einstakra hv. þingmanna úr stjórnarliðinu voru þannig kvöldið sem við ræddum fjárlagafrumvarpið við 2. umr. að það var ómögulegt að skilja annað en að menn hefðu fullan fyrirvara á stuðningi sínum við fjárlagafrumvarpið eins og það lá þá fyrir. Nú sjáum við að ekki eru gerðar grundvallarbreytingar á þessu fjárlagafrumvarpi, alls ekki þannig, það eru gerðar breytingar, en það er augljóst mál að þeir sem ekki treystu sér til að styðja málið við 2. umr. eða höfðu uppi fyrirvara um stuðning sinn við það með því að vísa til þess að það þyrfti að gera á þessu fjárlagafrumvarpi breytingar milli 2. og 3. umr. hljóta a.m.k. að hugsa mjög sinn gang núna þegar þetta fjárlagafrumvarp er komið hingað nær fullbúið af hálfu meiri hluta ríkisstjórnarinnar sem kynnir áherslur sínar að breytingum við 3. umr. í þeim breytingartillögum sem við höfum öll hér fyrir framan okkur.

Ég spurði áðan hvort í raun væri verið að boða grundvallarbreytingar á heilbrigðisstefnunni sem boðuð var upphaflega í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram. Ég spyr vegna þess að sumum spurningum er ósvarað. Að sumu leyti sjáum við að það er verið að ganga til baka. Það er verið að skila til baka þeim skerðingum að einhverju leyti sem gerðar voru á einstökum heilbrigðisstofnunum. Það er þó ekki gert nema að hluta til sums staðar. Tökum dæmi Húsavík og Sauðárkrók sem ég hef áður gert að umtalsefni. Við sáum við breytingarnar við 2. umr. að ákveðið var að skilja þessar tvær stofnanir eftir með ákveðna sérstöðu, með niðurskurð upp á 12%. Það var augljóst mál að það yrði mjög þungbært fyrir þessar stofnanir þótt það væri auðvitað skömminni skárra en niðurskurður upp á 30, 40 eða 50% eða hvað þessar tölur voru á þessum stofnunum í upphafi málsins. Það er augljóst mál að það er heilmikill munur á því og 12% niðurskurði. Engu að síður er þannig brugðist við, og ég fagna því, í þessum breytingartillögum meiri hlutans nú við 3. umr. að ganga heldur lengra til baka með þennan niðurskurð með því að gera breytingartillögur sem fela í sér að þessar stofnanir tvær sem ég hef aðeins nefnt hérna fá niðurskurð upp á 10% en ekki 30 eða 40% eins og ætlunin var í upphafi.

Spurningin er þá þessi: Er þetta til marks um varanlega stefnubreytingu eða er hér eingöngu verið að bregðast við þeim pólitísku erfiðleikum sem ríkisstjórnin var lent í með fjárlagafrumvarpið á þessu hausti?

Ég spyr vegna þess að við vitum að samfara því að gerðar voru breytingartillögur í tengslum við 2. umr. fjárlaga var boðað að það yrði haldið áfram á sömu braut sérstaklega í þessum stofnunum og þær skornar niður um 12–14% þegar á árinu 2012 með fjárlagafrumvarpi sem yrði lagt fram á haustdögum 2011.

Nú spyr ég: Hefur verið horfið frá þessum fyrirætlunum? Er ætlunin að hverfa frá þessum boðaða niðurskurði? Er hér eingöngu um stundargrið að ræða? Eða er hér um að ræða varanlega stefnubreytingu? Þetta er nokkuð sem við þurfum nauðsynlega að fá svar við.

Í annan stað gagnrýndi ég það mjög harkalega hér við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið hvernig farið væri með mál sem snúa að húshitunarkostnaði. Það er mál sem við þingmenn, hvar í flokki sem við höfum staðið, höfum haft miklar áhyggjur af. Við sjáum það á tölum sem hafa birst, m.a. í svari hæstv. iðnaðarráðherra við fyrirspurn frá mér, að þessi mál hafa illu heilli þróast á verri veg síðustu árin. Þetta gekk bærilega framan af fyrsta áratug þessarar aldar, svona fram á árið 2003 var þetta alveg þokkalegt, en síðan hefur smám saman hallast á verri veginn og alveg sérstaklega núna upp á síðkastið.

Ég geri út af fyrir sig ekki kröfu til þess að menn hafi afl til að snúa þessu mikið við núna. Þó vil ég segja að það skýtur skökku við að það skuli hafa verið áhersluatriði iðnaðarráðuneytisins við þessar þröngu aðstæður að leggja til meiri niðurskurð á framlögum til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði en sem svaraði aðhaldskröfunni sem samþykkt var í ríkisstjórninni og átti að gilda um það ráðuneyti. Það gerir það að verkum og sýnir okkur að það er ákveðin stefnumótun í gangi og hún felur það m.a. í sér að ganga harðar fram gagnvart niðurgreiðslunum á húshitunarkostnaði en ýmsum öðrum málaflokkum innan þessa ráðuneytis. Í þessu felst pólitísk stefnumótun, ákveðin pólitísk forgangsröðun sem ég er í þessu tilviki algerlega ósammála og mér finnst að þar séum við á rangri braut.

Þetta er þó ekki allt. Hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir tekjuöflunarfrumvarpi fyrir ekki löngu sem fól það í sér að hverfa frá endurgreiðslum sem hafa verið á virðisaukaskatti á húshitun. Nú má vel vera að það endurgreiðslukerfi sé ekki fullkomið og þurfi einhverrar endurskoðunar við. Það er þá nokkuð sem við skulum ræða um og takast á við. Það má vel vera að það sé skynsamlegra að hætta virðisaukaskattsendurgreiðslunum og taka þess í stað frekar upp það fyrirkomulag að láta meira fé af hendi rakna til niðurgreiðslunnar til að bæta þann kostnaðarauka sem fólk á hinum svokölluðu köldu svæðum verður fyrir ef endurgreiðslunni á virðisaukaskattinum verður hætt. Það má vel vera að þetta sé sjónarmið sem við getum rætt. Að vísu er valt völubeinið og við vitum að það er ekki á vísan að róa, það getur vel verið svo að menn grípi til þess ráðs. Annað eins hefur gerst, bæði í tíð þessarar ríkisstjórnar og ríkisstjórnar sem ég hef svo sem borið ábyrgð á sem stjórnarliði, að menn hafa farið í að skerða framlög til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði þannig að það er ákveðin óvissa sem skapast með því fyrirkomulagi. En látum það vera, segjum bara sem svo að þetta endurgreiðslukerfi sé ekki nægjanlega gott, það sé þá skynsamlegt að hverfa frá því en taka í staðinn upp auknar niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði með beinum framlögum frá ríkissjóði. Ríkissjóður fær auknar tekjur með því að endurgreiðslunum á virðisaukaskattinum verður hætt eða þeim breytt og þess vegna er ekkert óeðlilegt að komið sé til móts við þarfir fólksins á hinum svokölluðu köldu svæðum þannig að ríkissjóður hafi þetta a.m.k. ekki beinlínis að féþúfu, vandamál fólksins á landsbyggðinni og þennan háa húshitunarkostnað.

Hæstv. fjármálaráðherra var um þetta spurður þegar hann mælti fyrir þessu máli sínu á þinginu. Hæstv. fjármálaráðherra var mjög skýr í svari. Hann sagði að það væri tvennt til, auðvitað kæmi til greina að hverfa frá þeim áformum að hætta við endurgreiðslu á virðisaukaskattinum ellegar að sjá til þess að sams konar upphæð kæmi á móti til lækkunar á húshitunarkostnaði með því að auka framlögin til niðurgreiðslunnar sem svara þeim tekjuauka sem ríkissjóður fær af þessum breytingum.

Í forsendunum að því frumvarpi er gert ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs muni aukast um tæplega 220 millj. kr. við það að hætta við þessar niðurgreiðslur, ég hygg að það hafi verið 216 millj. kr. svo ég sé nákvæmur. Í breytingartillögum frá meiri hluta fjárlaganefndar er nú komið til móts við þetta en ekki að fullu. Þar er lagt til að 140 millj. kr. séu lagðar inn í að lækka húshitunarkostnaðinn til að bregðast við þeim fyrirætlunum sem uppi eru um að hætta endurgreiðslunum á virðisaukaskattinum. Ég spyr: Hvers vegna er þetta nú gert? Af hverju gátu menn ekki verið nægjanlega stórmannlegir til að bæta þetta að fullu? Finnst mönnum ekki nægjanlega að gert? Finnst mönnum ekki að húshitunarreikningarnir séu nægilega háir úti á landi þar sem þeir eru hæstir? Hefði ekki verið eðlilegt að fylgja þeirri stefnumörkun hæstv. ráðherra af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar sem sagði okkur að þetta ætti ekki að verða sjálfstæður tekjuöflunarstofn fyrir ríkissjóð? Þetta átti eingöngu að vera hugsað sem kerfisbreyting sem ekki ætti að hafa nein áhrif, nettóáhrifin ættu að vera núll, ríkissjóður átti hvorki að græða né tapa, íbúarnir á köldu svæðunum áttu hvorki að græða né tapa heldur standa jafnir á eftir. Þess vegna hefði a.m.k. verið eðlilegt að gera þá kröfu, úr því að sú leið er valin að hverfa frá þessu endurgreiðslufyrirkomulagi, að skila til baka að fullu þeirri tekjuaukningu sem ríkissjóður fær þarna. Það er óeðlilegt að gera það með þeim hætti að í þessu tilviki sé verið að hafa þetta að sérstakri féþúfu fyrir ríkissjóð.

Það segir skýrt í skýringum við breytingartillögu við sundurliðun 2, lið 11-373, að 140 millj. kr. hækkun á framlagi til liðarins sé til þess að koma til móts við þær breytingar sem voru gerðar á endurgreiðsluaðferðinni.

Annað sem ég hefði líka áhuga á að forvitnast um er að í breytingartillögunum þar sem fjallað er um fjárlagaliðinn Flugvellir og flugleiðsöguþjónusta er gert ráð fyrir því að framlag til starfsemi Isavia hafi upphaflega átt að lækka um 300 millj. kr. en nú verði gengið til baka nokkuð þannig að þessi lækkun verði 180 millj. kr. minni. Síðan segir í þessum skýringum, með leyfi virðulegs forseta:

„Er nú lagt til að lækkun á framlagi nemi ekki 300 millj. kr. heldur 180 millj. kr. til að komist verði hjá því að hækka verð á innanlandsflugi umtalsvert.“

Nú spyr ég: Hafa menn velt þessu fyrir sér? Hvað þýðir þetta? Hvað er hér verið að boða? Er hér verið að boða það að þetta muni þýða auknar álögur á innanlandsflugið? Mun þetta birtast okkur í hærri flugfargjöldum, eða hvernig er þetta hugsað? Við vitum að í dag er þetta gríðarlega dýrt, ef menn fljúga innan lands er ekkert óalgengt að menn borgi fyrir ferðirnar fram og til baka milli 20 og 30 þús. kr. og þótt einhver tilboð séu möguleg er þetta mjög íþyngjandi fyrir fjölskyldur, til að mynda á landsbyggðinni, sem þurfa við þetta að búa.

Þess vegna spyr ég: Er hér verið að höggva í þennan knérunn enn og aftur? Á hér enn og aftur að hækka ýmsa kostnaðarliði sem eru nauðsynlegir fyrir fólk sem býr á landsbyggðinni?

Ég hef nú talað með nokkurri neikvæðni um ýmislegt í þessu fjárlagafrumvarpi, kannski er að verða mál að linni. Ég vil þess vegna nota tækifærið þessar fáeinu mínútur sem eftir eru til að fagna einni skýrri stefnubreytingu sem kemur fram í afgreiðslu meiri hluta fjárlaganefndar, bæði við 2. og 3. umr. Þegar fjárlagafrumvarpið var upphaflega lagt fram var gert ráð fyrir því að niðurskurður til Háskólaseturs Vestfjarða næmi 30%. Það hefði verið rothögg á starfsemi háskólasetursins. Nú skulum við ekki gleyma því að Háskólasetur Vestfjarða gegnir gríðarlega þýðingarmiklu hlutverki. Í fyrsta lagi er þetta mjög myndarleg og góð menntastofnun út af fyrir sig og þýðingarmikið fyrir okkur sem samfélag að hafa hana. Það er aðalatriðið. Hins vegar hefur þessi stofnun líka gegnt mjög miklu byggðalegu hlutverki. Þetta hefur verið einn af þáttunum sem við höfum byggt upp víða úti um landið til að bregðast við ýmsum breytingum sem hafa orðið í samfélaginu. Það hefur sorfið að á mörgum sviðum, störfum hefur fækkað í frumframleiðslugreinunum sem landsbyggðin er svo háð. Þess vegna höfum við meðvitað gert breytingar til að styrkja ýmsa aðra innviði samfélagsins, svo sem menntakerfið úti á landsbyggðinni. Háskólasetur Vestfjarða var m.a. hugsað til þess. Þess vegna fékk iðnaðarráðuneytið, ráðuneyti byggðamála, sérstaka fjárveitingu á sínum tíma frá Alþingi til að geta lagt þessu háskólasetri lið og komið löppunum undir það. Það sem er athyglisvert er að háskólasetrið var að hasla sér nýjan völl með því að búa til meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun sem var orðið eftirsótt af ýmsum erlendum stúdentum og skipti orðið mjög miklu máli. Nýlega var gerð athugun á efnahagslegri þýðingu háskólasetursins fyrir samfélagið á norðanverðum Vestfjörðum. Niðurstaðan varð sú að þarna væri um að ræða veltu inn í samfélagið upp á 200 og eitthvað milljónir króna í þessari litlu, nýju stofnun sem er farin að skipta svo miklu máli, fyrir utan þann mikla félagslega styrk sem stofnun af þessu tagi veitir samfélagi eins og á norðanverðum Vestfjörðum.

Þess vegna voru það gríðarleg vonbrigði þegar iðnaðarráðuneytið tók þá afstöðu að halda ekki áfram stuðningnum við háskólasetrið og það var ekki bætt upp að öðru leyti. Háskólasetrið stóð skyndilega frammi fyrir 30% niðurskurði. Ég vil segja meiri hluta fjárlaganefndar og fjárlaganefndinni það til hróss að strax við 2. umr. var gengið að nokkru leyti til baka með þennan niðurskurð og hann var mildaður þannig að hann stefndi í að verða 16% sem hefði hins vegar haft mjög mikil áhrif. Ég rakti það við 2. umr. málsins að 16% niðurskurður svaraði til eins þriðja af launakostnaði þessarar litlu stofnunar eða sem svaraði öllum húsaleigukostnaði stofnunarinnar í eitt ár.

Það sjá auðvitað allir að þetta hefði haft mjög alvarleg áhrif fyrir starfsemi stofnunarinnar, enda bjuggu menn sig undir erfitt ár fram undan miðað við þessar aðstæður.

Nú hefur það hins vegar gerst að við breytingartillögur frá meiri hluta fjárlaganefndar er gert ráð fyrir því að 10 millj. kr. verði varið til viðbótar til stofnunarinnar þannig að það má segja að áformaður niðurskurður sé genginn til baka. Ég þakka fjárlaganefndinni allri, því að ég veit að þar hafa allir komið að málum, fyrir þennan myndarskap. Þetta mun skipta mjög miklu máli og hafa mikil áhrif.

Ég held að þetta geti líka verið okkur ákveðin lexía. Þessi þekkingarsetur úti um landið hafa byggst upp smám saman. Menn hafa kannski ekki alltaf gert sér grein fyrir þýðingu þeirra meðan uppbyggingin hefur átt sér stað. Í athugun sem menntamálaráðuneyti og Byggðastofnun gerðu á þessu kemur fram að þegar um er að ræða háskólasetur, símenntunarmiðstöðvar, þekkingarsetur, menningarstarfsemi og aðra skylda hluti telja þau að heildartekjurnar af þessari starfsemi losi 5 milljarða kr. Ríkisframlagið er þó ekki nema helmingurinn af þessu. Þessar stofnanir afla sér með öðrum orðum tekna upp á þá 2,5 milljarða kr. eða þar um bil, a.m.k. 2 milljarða, aukalega sem koma þá inn í þessi samfélög. Þetta segir okkur heilmikla sögu um þýðingu þessarar starfsemi. Ég held að við ættum að reyna að sameinast um að verja hana. Ég hygg að sú stefnubreyting sem meiri hluti fjárlaganefndar kynnir með breytingartillögum sínum sé til marks um það.