139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[20:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Stór hluti þingmanna er tiltölulega nýkominn inn á þing og því held ég að það hafi verið mjög gagnlegt að fá yfirferð hjá hv. þingmanni á því hvernig staðið var að vinnu við fjárlagafrumvarpið nú í samanburði við hvernig það hefur verið áður sem kannski má telja eðlileg eða eðlilegri vinnubrögð. Það er mjög sláandi, líka fyrir þá sem eru nýkomnir í stjórnmálin, að fylgjast með því hvernig að þessu hefur verið staðið og áhugavert að fá staðfestingu reynds þingmanns á því að það sé ákaflega óeðlilegt.

Ég velti fyrir mér, af því að nú höfum við séð núverandi ríkisstjórn vinna tvenn fjárlög og við höfum ekki séð mikla framför á milli fjárlaga, svo ekki sé meira sagt, hvort ekki megi halda því fram að ríkisstjórnina skorti aðhald. Þá langar mig að biðja hv. þingmann að velta vöngum, því að eins og ég nefndi hefur hann töluverða þingreynslu og reynslu úr ríkisstjórn líka, yfir hvernig umfjöllunin hefði verið ef ríkisstjórn sem hv. þingmaður átti sæti í, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hefði unnið að fjárlögum á sama hátt og núverandi ríkisstjórn hefur leyft sér að gera og skilað sams konar drögum að fjárlögum og hafa komið hingað inn. Er ekki viðbúið að þá hefði umfjöllunin verið töluvert meiri og aðhaldið gagnvart þeirri ríkisstjórn, t.d. í fjölmiðlum og samfélaginu öllu, (Gripið fram í.) og hefði það ekki vakið harðari viðbrögð en við höfum orðið vitni að hjá sitjandi ríkisstjórn? Með öðrum orðum, kemst ríkisstjórnin ekki bara upp með allt of mikið og er það ekki hættuleg staða þegar pólitískt aðhald skortir?