139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[20:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til þess að fara aðeins inn á þátt Háskólaseturs Vestfjarða sem ekki síst hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson átti mikinn þátt í að koma á laggirnar með mikilli baráttu og eljusemi af því að það var ákveðin krafa, og oft á tíðum mjög erfið umræða, að byggður yrði upp fullgildur háskóli á Vestfjörðum. Við áttum að einblína á starfsemina og við gerðum það, m.a. í samvinnu tveggja ráðuneyta.

Ég vil spyrja hv. þingmann varðandi uppbyggingu Háskólaseturs Vestfjarða, sem ég tek heils hugar undir að er afskaplega mikilvæg stofnun á Vestfjörðum og ekki bara fyrir Vestfirði heldur líka almennt fyrir fræðasamfélagið á landinu öllu, hvort hann sé ekki sammála því að hlutunum sé núna betur borgið með því að eitt ráðuneyti beri faglega ábyrgð á háskólasetrinu en að hafa það tvískipt eins og það var. Við vöruðum bæði, minnir mig, á sínum tíma við því að deila þessari ábyrgð. Við sögðum að undir eins og kreppti að mundi iðnaðarráðuneytið slá þetta af, sem og gerðist núna við fyrstu ágjöf. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því að þessu sé betur borgið meðan það heyrir undir eitt ráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneytið. Ég vil líka spyrja hv. þingmann — vonandi erum við sammála um að þetta sé komið í fastari farveg núna — hvernig hann sjái Háskólasetur Vestfjarða byggjast upp á næstu árum.