139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[20:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði að á sínum tíma hefði verið tekist á um hvort leggja ætti áherslu á að byggja upp þetta háskólasetur, sem gæti síðan mögulega orðið að sjálfstæðum háskóla, eða hvort menn ættu ekki að byrja nema að lagt væri af stað með fullgildan háskóla í huga.

Sem betur fer varð niðurstaðan sú sem við vitum að Háskólasetur Vestfjarða var stofnað og hefur síðan eflst og dafnað. Ég held að meginávinningurinn í fyrirkomulaginu felist m.a. í því að með því að háskólasetrið sé eins og það er í dag geti það tekið upp samstarf við ýmsa háskóla, eins og t.d. hefur verið gert varðandi haf- og strandsvæðastjórnun þar sem Háskólinn á Akureyri er eins konar móðurskóli sem ber faglega ábyrgð á því námi en námið sjálft fer fram á vettvangi háskólasetursins. Ég var svo lukkulegur að vera á Hrafnseyri við Arnarfjörð 17. júní þegar fyrstu nemendurnir voru útskrifaðir úr þessu námi. Ég held að aðalatriðið að því leytinu til sé að horfa á starfsemina sjálfa en ekki á skipulagið.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir. Það er skynsamlegra að eitt ráðuneyti beri ábyrgð á þessu, ráðuneyti menntamála, enda sjáum við núna að um leið og harðnar á dalnum dregur iðnaðarráðuneytið, sem sér auðvitað að þetta er ekki hluti af kjarnastarfsemi sinni, að sér höndina og peningarnir eru farnir burt.

Það sem ég vil hins vegar segja og skiptir miklu máli í framhaldinu er þetta: Um leið og við horfum á Háskólasetur Vestfjarða sem alvöru stofnun, sem alvöru háskólastofnun, rannsóknarstofnun og vísindastofnun, verðum við auðvitað að meðhöndla og horfa á það með sama hætti og aðrar háskólastofnanir í landinu. Þá dugir ekki að koma eitt árið og segja: Heyrðu, nú ætlum við að skera hér niður um 30% þegar aðhaldskrafan er 5%, 7% eða 8% í öðrum háskólum. Þá verða menn einfaldlega að horfast í augu við að þetta er háskólastofnun sem er komin til að vera og verður þess vegna að lúta svipuðum aga og aðrar háskólastofnanir.