139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það sem hér er á ferðinni er útreikningur iðnaðarráðuneytisins á því hvað nákvæmlega þarf í krónum til þess að endurgreiða að fullu virðisaukaskattinn til þeirra aðila sem eiga rétt á því miðað við þá 7% skattlagningu sem er í dag. Útskýrt er hvers vegna þetta er talan. Fyrra kerfi var í raun og veru orðið ónothæft.

Nú er þetta reiknað á réttum grundvelli og þá á þessi upphæð að duga til þess að virðisaukaskatturinn sé endurgreiddur að fullu til þeirra aðila sem uppfylla til þess skilyrði. Þar til viðbótar er nú bætt við 40 milljónum í hina almennu niðurgreiðslu á rafhitun á köldum svæðum, sem hlýtur að gleðja hv. þingmann. Það er því verið að bæta þar í liðinn og við nálgumst þá aftur töluna sem hann vill meina að ríkið hafi í tekjur af því að endurgreiðslunni eða niðurfellingunni sé sleppt.

Varðandi vinnubrögðin og niðurstöður í fjárlagafrumvarpinu skiptir mestu máli og gleður mig auðvitað hvað mest að (Forseti hringir.) eftir mikla og góða vinnu fjárlaganefndar og breytingartillögur, sem ég er ánægður með (Forseti hringir.) og milda m.a. niðurskurð í velferðarmálum, stefnir í frumvarp sem er fullkomlega innan ramma efnahagsáætlunarinnar með þá niðurstöðu (Forseti hringir.) í frumjöfnuði sem við stefndum að á næsta ári.