139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:03]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af niðurgreiðslunum þá standa tölurnar óhaggaðar. 216 millj. kr. fær ríkissjóður, 140 er skilað til baka. Síðan eru 40 millj. kr. sérstaklega lagðar fram til að draga aðeins úr þeim mikla niðurskurði sem ella hefði verið á fjárlögunum til niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði og dugir samt ekki til.

Það sem mér fannst hins vegar athyglisvert við svar hæstv. ráðherra var þögnin. Ég lagði töluvert í það í ræðu minni að vekja athygli á þeim stórfurðulegu vinnubrögðum sem okkur var sagt af stjórnarliðum að hefðu verið viðhöfð við undirbúning fjárlagafrumvarpsins. Mig rekur ekki minni til þess að slíkt hafi átt sér stað áður.

Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra að því hvort hann gæti staðfest þetta. Ekki að ég ætli að vefengja orð þeirra þingmanna sem þannig töluðu og greindu frá þessu í kjördæmunum á fjölmennum fundum. Það hefði engu að síður verið fróðlegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra tjá sig um þetta. Hann fær kannski tækifæri til þess síðar. Það eru algjör nýmæli að fjárlagafrumvarp sé lagt fram með þeim hætti að stjórnarliði, sem ber jafna ábyrgð á við ráðherrann í þessum efnum, (Forseti hringir.) skuli ekki hafa haft grænan grun um það sem þar var og sýnir bæði sinnuleysi þessara þingmanna og svo auðvitað ákveðin vinnubrögð (Forseti hringir.) sem hæstv. ríkisstjórn hefur tamið sér.