139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alltaf ákjósanlegt í þingsal að fá skýrar spurningar. Þeim mun auðveldara er að svara þeim. Ég get ekki svarað fyrir þingflokka beggja stjórnarflokkanna en ég get svarað a.m.k. fyrir minn þingflokk. Það var umtalsverð umfjöllun um fjárlagafrumvarpið áður en það var lagt fram, stóru línurnar í því eins og við segjum. Út af fyrir sig var öllum þingmönnum kunnugt hvers var að vænta því að samþykkt var áætlun í ríkisfjármálum, eða lögð fram og rædd, þegar á síðasta ári, 2009, af hæstv. fjármálaráðherra. Það hefur þess vegna legið lengi fyrir hvaða verkefni væru fram undan í ríkisfjármálunum. Ef eitthvað er hefur verið tekið heldur meira á tekjuhliðinni en vænta mátti í áætlunum og útgjaldahliðinni hlíft heldur meira en ætla hefði mátt samkvæmt þeim áætlunum. Við tókum meiri hluta í sköttunum til að byrja með af því að það eru ákvarðanir og aðgerðir sem skila sér fyrr.

Við þetta má líka bæta að hæstv. fjármálaráðherra hefur haft ákaflega gott samráð við okkur þingmenn stjórnarflokkanna, einkanlega í efnahags- og skattanefnd sem ég stýri, fjárlaganefnd sömuleiðis. Við höfum fengið að koma, treysti ég mér að fullyrða, miklu fyrr að undirbúningi fjárlaga en nokkru sinni fyrr og vinna með hæstv. ráðherra og embættismönnum ráðuneytisins í undirbúningi fjárlaganna þannig að við erum ekki að koma að gerðum hlut heldur er þetta virkt samráð. Ég get fyllilega staðfest það.

Ég skal síðan bregðast við spurningunum um veggjöldin í síðara andsvari mínu því að ég er búinn með tímann í þessu.