139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir svörin. Ég hef raunar ekki annað fram að færa í þessu seinna andsvari en að taka undir með hv. þingmanni þegar hann talar um breytingar á þingsköpum, að þær eigi að lögfesta. Akkúrat það sem ég gerði að umtalsefni áðan, að tekjufrumvörpin sem fyrir liggja og eru grundvöllur að reiknuðum tölum inni í fjárlagafrumvarpinu séu lögð fram og afgreidd áður en Alþingi afgreiðir fjárlagafrumvarp fyrir komandi ár. Ekki með þeim hætti að frumvörpin sem eru grunnurinn að tekjuöfluninni séu afgreidd eftir að reiknaðar tölur eru komnar inn í fjárlagafrumvarpið. Að því leyti erum við hv. þingmaður sammála. Vonandi verður þetta enn ein breyting til batnaðar í vinnulagi þingsins og þingnefnda. Að Alþingi, löggjafarvaldið, fari að stíga fast í fætur gagnvart framkvæmdarvaldinu þannig að það verði ekki liðið að framkvæmdarvaldið skili inn frumvörpum sem skipta máli við jafnmikilvægt mál og hér er, fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Að við séum að ræða með hraði á fundum í kvöldmatarhléi 3. umr. fjárlaga og að enn séu óafgreidd þau tekjufrumvörp sem liggja að baki fjárlagafrumvarpinu.

Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni og þakka honum hreinskilnina og einlægnina í því að vilja breyta þessu vinnulagi. Ég vonast þá til þess að við getum tekið höndum saman í því. Þetta vinnulag sem hér ríkir, og mér er slétt sama þó að það hafi ríkt síðustu áratugi, er óásættanlegt.