139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég sé ástæðu til að taka undir viðvörun hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur varðandi vinnubrögðin og sérstaklega með stóra Icesave-málið. Þetta kemur inn núna eins og hv. þingmaður bendir á og enginn tími, sérstaklega með hliðsjón af þeirri miklu vinnu sem er eftir vegna þess að við erum að klára fjárlagafrumvarpið á morgun, fyrir þingmenn að kynna sér málið (Gripið fram í.) áður en kemur að umræðu um Icesave-málið á morgun samkvæmt áætluninni sem menn hafa unnið út frá.

Ég held að hæstv. fjármálaráðherra þurfi, við þessar aðstæður, að velta því fyrir sér hvort hann sé hugsanlega brunninn inni með þetta mál í bili. Það kynni að vera eðlilegra og skynsamlegra fyrir alla að fresta því að taka það fyrir þangað til eftir áramót.