139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það var áhugavert að heyra hv. þm. Helga Hjörvar lýsa því yfir í ræðu sinni að þingmenn hefðu líklega sjaldan verið jafn vel upplýstir um innihald fjárlagafrumvarps og nú og sjaldan fengið að koma jafnsnemma að undirbúningi málsins. Í orðunum fólst líka að hv. þingmaður virtist telja að heilsugæsla og heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni væri að mati núverandi ríkisstjórnar smámál. Í máli hans kom fram að farið hefði verið yfir allt með öllum þingmönnum stjórnarliðsins með góðum fyrirvara nema einhver smámál sem hefðu síðan komið upp í framhaldinu og menn kannski ekki verið fyllilega búnir að kynna sér. Það hlýtur að vera áhyggjuefni, frú forseti, ef ríkisstjórnin skilgreinir heilsu fólks á landsbyggðinni sem smámál og í rauninni öryggi fólks vítt og breitt um landið.

Mikið er búið að ræða um vinnubrögð við gerð fjárlagafrumvarpsins. Þó að hv. þm. Helgi Hjörvar hefði komið svolítið á óvart með yfirlýsingu sinni um hversu mikið þingmenn stjórnarliðsins hefðu verið hafðir með í ráðum við undirbúning málsins er þó ljóst að á ýmsan hátt vantaði talsvert upp á samráð og eðlilegan undirbúning, til að mynda gagnvart þeim sem vinna þau störf sem hugsanlega eða líklega stendur til að leggja niður. Það var ekki einu sinni haft fyrir því að ræða við það fólk eða heyra sjónarmið þess áður en menn lögðu fram frumvarpið. Og aftur, rétt eins og í fyrra, stóðum við frammi fyrir fjárlagafrumvarpi sem var eiginlega nokkurs konar drög. Elstu og reyndustu menn í þinginu hafa lýst því að þeir hafi aldrei séð annað eins.

Ég held ekki að það sé ástæða til að fara enn og aftur yfir þetta, eins og ég nefndi eru margir þingmenn búnir að gera það á undan mér. Hins vegar held ég að rétt sé að hnykkja á því sem hefur að einhverju leyti komið fram, m.a. hjá hv. þm. Pétri Blöndal áðan, að það er áhyggjuefni að ríkisstjórnin virðist stöðugt færa sig meira út í það sem kalla mætti „grískt bókhald“, þ.e. ýmiss konar brögðum er beitt til þess að láta fjárlögin líta allt öðruvísi og skár út en þau raunverulega gera. Eitt sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi var veðsetning skatta framtíðarinnar. Við höfum séð ríkisstjórnina reyna að ná til sín fyrir fram greiddum sköttum til að mynda með samningum við álfyrirtækin um að þau greiði skatta nokkur ár fram í tímann. Ég hugsa að einhver umræða hefði farið fram um slíkt ef hér hefði setið við völd ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og samið við álframleiðendur um að þeir greiddu skatta nokkur ár fram í tímann eins og núverandi ríkisstjórn gerði. Svo birtast alls konar hugmyndir sem kalla mætti leyniskatta eða skattlagningu sem fær önnur nöfn eins og veggjöld sem við höfum svolítið verið að ræða að undanförnu. Menn hafa yfirleitt gengið út frá því sem vísu að eitt af því sem þeir borguðu með sköttunum sínum væri að geta gengið á gangstéttum eða ekið um vegi. Það hefur verið eitt af grundvallaratriðum, mundi ég halda, þessir innviðir samgangna, ásamt til að mynda heilbrigðisþjónustunni. Þetta er eitt af því sem ég hugsa að fólki detti einna fyrst í hug ef það á að nefna hvað það fær fyrir skattana sína. En nú á að taka þetta út fyrir sviga og skattleggja sérstaklega.

Svo er líka verið að skattleggja einskiptisráðstafanir og láta líta út sem raunverulegar sjálfbærar skatttekjur og fela með því þá staðreynd að skattstofnarnir hafa brugðist. Bent var á það í fyrra að áætlanir ríkisstjórnarinnar varðandi skattstofnana eða það sem hún gæti náð út úr því að hækka skatta væri ofmetið. Svo kemur ríkisstjórnin og segir, ja, að hún hafi nú bara náð þeim tekjum sem ráð var fyrir gert. En það fylgir ekki sögunni að það var gert með því að skattleggja til að mynda úttektir úr lífeyrissparnaði, nokkuð sem ekki er hægt að skattleggja aftur.

Svo er náttúrlega stóra „blöffið“, eða hvað við eigum að kalla það, sem er að sleppa hinum gríðarlega stóra útgjaldalið, Icesave-kröfunum, sem ríkisstjórnin var á sínum tíma búin að ákveða að gangast undir og breyta kröfunum í skuldir, en sleppti einfaldlega að nefna þá 42 milljarða eða hvað það nú var sem menn hefðu þurft að greiða í vexti vegna málsins í fyrra. Því var bara sleppt að nefna það í fjárlögum síðastliðins árs og svo er því aftur sleppt núna. Þó að engin rök séu fyrir því er í rauninni verið að fela útgjöld sem ríkisstjórnin gerir þó ráð fyrir að verði — ætlast þá væntanlega til þess að einhverjir sem koma að síðar sitji upp með að færa þau inn í bókhald ríkisins.

Ég leyfi mér að efast um að öðruvísi samsettar ríkisstjórnir hefðu komist upp með sömu vinnubrögð. Ég held að umfjöllunin í fjölmiðlum og gagnrýni í samfélaginu hefði verið töluvert meiri og háværari á svona leiki og svona blekkingar, margt af þessu er hrein og klár blekking, ef ekki væri um að ræða núverandi ríkisstjórn sem enn tveimur árum eftir efnahagshrunið virðist byggja tilveru sína fyrst og fremst á því og afsaka allar gjörðir sínar með vísan í það.

Það sem ég hef helst áhuga á að ræða varðandi þetta fjárlagafrumvarp eru ekki tilteknir liðir þess eða vinnubrögð ríkisstjórnarinnar heldur miklu frekar það sem vinnubrögð ríkisstjórnarinnar við fjárlagagerðina gefa okkur tækifæri til að sjá, þ.e. galla á því hvernig fjárlög eru unnin sem er ekki nýtt en það hvernig ríkisstjórnin hefur staðið að málum hefur hins vegar leitt okkur það fyrir sjónir.

Tökum sem dæmi áformin um verulegan niðurskurð í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Þar reiknuðu menn með því að allt sem skorið væri niður í heilbrigðisþjónustu væri hreinn sparnaður. Með öðrum orðum var ekki gert ráð fyrir því að kostnaður mundi aukast neins staðar á móti eða að eitthvert efnahagslegt tjón yrði af niðurskurðinum. Tökum sem dæmi að ef skorið er niður norður í landi þarf fólk í auknum mæli að fara suður til Reykjavíkur til að leita sér læknisþjónustu og hugsanlega leggjast inn á sjúkrahús. Ekki var gert ráð fyrir neinum viðbótarkostnaði við það. Það yrði bara ókeypis, allar afleiðingarnar. Eins ef ættingjar þyrftu að ferðast suður til að heimsækja þá sem leggjast inn á spítala þar, það væri enginn kostnaður af því. Ég tala nú ekki um áhrifin sem þetta hefði haft og mun hafa ef fram heldur sem horfir á hin ýmsu byggðarlög út um landið. Þar er ekki reiknað með einni einustu krónu í kostnað á móti þeim sparnaði sem gert er ráð fyrir. Þarna sjáum við stóran galla á því hvernig fjárlögin eru unnin. Menn skoða ekki báðar hliðar málsins, menn reikna ekki heildarafleiðingarnar og reikna ekki heldur áhrifin til langs tíma.

Það sem ég held að við þurfum að læra af vandræðagangi núverandi ríkisstjórnar er að breyta því hvernig fjárlög eru unnin. Í fyrsta lagi þurfum við að reikna í hverju raunverulegur sparnaður felst og gera greinarmun á fjárfestingu annars vegar, fjárfestingu sem sparar pening til lengri tíma litið eða skapar jafnvel auknar tekjur, og hreinum útgjöldum. Það skortir verulega á að við gerum þennan greinarmun núna. Við leggjum að jöfnu eitthvað sem er bara peningur sem er farinn, jafnvel út úr hagkerfinu, og pening sem varið er í að byggja eitthvað upp, kaupa eitthvað sem sparar pening eða skapar okkur auknar tekjur í framtíðinni. Við getum ekki gert þennan greinarmun almennilega nema líta á fjárlög til lengri tíma en eins árs í senn. Við eigum að skoða fjárlög til a.m.k. fimm eða jafnvel tíu ára, gera áætlun til svo langs tíma til að geta metið hver sé hinn raunverulegi kostnaður til langs tíma og hver sé raunverulegur sparnaður. Þetta yrði grundvallarbreyting á því hvernig fjárlög væru unnin en nauðsynleg, held ég, til þess að gefa sanna mynd af því sem menn vilja að þau sýni.

Ég held að við þurfum líka að huga meira að því hvaða peningar fara út úr hagkerfinu og hvernig við fáum gjaldeyristekjur inn í hagkerfið. Það er eitthvað sem ástandið núna minnir okkur rækilega á. Við höfum lagt að jöfnu kostnað sem fer beinustu leið út úr hagkerfinu við kostnað sem varið er í fjárfestingu innan lands þar sem peningurinn helst áfram innan íslenska hagkerfisins og veltist áfram — nær sem sagt margfeldisáhrifum. Einhverjum Íslendingi í vinnu hér á landi eru borguð laun fyrir tiltekinn hlut, stór hluti þeirra fer strax aftur til ríkisins í formi skattgreiðslna, stór hluti rennur í afborganir af lánum hér innan lands og stór hluti fer í að kaupa vörur og þjónustu af öðru fólki hér á landi og borga laun þess. Sá peningur sem veltist svona áfram og telst oft hefur engu að síður verið lagður að jöfnu við peninga sem fara beint út úr hagkerfinu og eru þar með farnir. Fjárlagagerðin, þ.e. hvernig fjárlög eru unnin, er röng. Hún gefur ekki raunverulega mynd af ástandinu.

Sérstakt áhyggjuefni núna er reyndar að ákveðnir liðir fá óeðlilega mikið vægi í fjárlögunum vegna þess að þeir eru „tískufyrirbæri“ — réttara sagt tengjast þeir því sem er ofarlega á baugi í umræðunni og þá sérstaklega ef hægt er að tengja þá á einhvern hátt við efnahagshrunið til að réttlæta að verja í þá einhverjum peningum. Tökum sem dæmi um þetta muninn á umræðunni um lögregluna, venjulega almenna lögreglu í landinu, og þann ótrúlega niðurskurð sem menn leyfa sér að fara í þar og berum það saman við þær gríðarlegu upphæðir sem verið er að setja í nýja lögreglu, sérstakan saksóknara. Fyrir þá peninga hefði verið hægt að stórbæta löggæsluna sem fyrir var í landinu, en vegna þess að hægt er að tengja sérstakan saksóknara við hrunið líta menn varla á það sem er varið í þá vinnu á meðan skorið er niður hjá almennu lögreglunni langt, langt umfram það sem boðlegt er. Þetta er sérkennilegt í ljósi þess að sérstaki saksóknarinn hefur tiltölulega illa skilgreint hlutverk og er að mörgu leyti að vinna sömu vinnu og skilanefndir bankanna láta vinna fyrir sig, eru búnar að ráða til þess erlend ráðgjafar- og rannsóknarfyrirtæki þar sem starfsmenn taka gríðarlega há laun, jafnvel 100 eða 200 þús. kr., ég veit ekki hvað menn rukka, það eru ótrúlegar upphæðir, ég hugsa að það séu 200 þús. kr. á tímann í mörgum tilvikum fyrir að vinna þessa rannsóknarvinnu, og hafa skilað af sér ýmsum upplýsingum um það sem gengið hefur á í íslenska banka- og fjármálakerfinu á undanförnum árum. Þar er verið að vinna sömu vinnu og ríkið ver gríðarlega miklum peningum í að láta nýtt, stórt og sífellt stækkandi batterí vinna um leið og hefðbundna íslenska lögreglan býr við fjársvelti og stöðugt er dregið úr þar.

Ég held að það skorti verulega mikið á að menn skoði heildarmyndina með því að líta á íslenska hagkerfið inn á við og út á við eða skoða heildarmyndina til lengri tíma. Dálítil hætta er á því að menn láti sveiflast eftir tískusveiflum. Nú er ég ekki að segja að ekki sé réttlætanlegt að stofna embætti sérstaks saksóknara, ég er bara að biðja um að menn setji hlutina í samhengi og skeri ekki gríðarlega mikið niður á einum stað og bæti við annars staðar án þess að færa gild rök fyrir því.

Aðalatriðið í þessu öllu saman til lengri tíma litið er auðvitað skuldsetningin, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar kom reyndar inn á áðan. Af þeim sökum er sérstaklega mikilvægt að koma í veg fyrir að skuldsetningin verði enn aukin. Þess vegna þurfum við sparnað samhliða nýrri fjárfestingu, en sá sparnaður verður ekki skilvirkur til lengri tíma litið nema við skoðum heildarmyndina. Auðvitað er ekki hægt að ná fram raunverulegum sparnaði ef menn ætla á sama tíma að fara í stórkostlega styrki íslenska ríkisins við Bretland og Holland. Þau lönd eiga jú í einhverjum efnahagsþrengingum og við óskum þeim alls hins besta en ég er ekki viss um, með hliðsjón af skuldastöðu Íslands, að við höfum efni á því að styrkja þau neitt sérstaklega, alla vega ekki á þessum tímapunkti, sjáum til þegar fram líða stundir hvort við getum farið að styrkja hin og þessi ríki.

Ef við náum fram eðlilegum sparnaði á sama tíma og við hugsum fjárlögin til langs tíma er allt til alls á Íslandi til að byggja mjög hratt upp aftur sterkt hagkerfi. Við sjáum það reyndar nú þegar eftir að komið var í veg fyrir mikið af þeirri skuldasöfnun sem ráð var fyrir gert að staða Íslands hefur styrkst. Tökum sem dæmi skuldatryggingarálagið margumrædda sem er mælikvarði á hversu miklar líkur menn telja á að ríkið komist í þrot. Ísland var þar á toppnum fyrir ekki svo löngu síðan. Menn töldu langtum meiri líkur á því að Ísland yrði gjaldþrota, gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar, en önnur Evrópuríki. En frá því menn tóku afstöðu gegn því að auka skuldir landsins með órökréttum og óhóflegum hætti hefur skuldatryggingarálag Íslands farið jafnt og þétt niður á við á sama tíma og álag margra annarra Evrópuríkja hefur rokið upp. Því er staðan orðin sú að ríki eins og Grikkland og Írland búa við margfalt hærra álag en Íslendingar. Menn telja sem sagt margfalt líklegra að þau ríki verði gjaldþrota en Ísland. Það sama á raunar við um lönd eins og Portúgal og meira að segja fyrir nokkrum vikum varð Ísland að traustari lántaka en Spánn. Þetta sýnir okkur það sem við höfum alltaf reynt að láta fylgja sögunni þegar við vörum við því að ráðist sé í misgáfulegar aðgerðir í ríkisfjármálum að ef menn passa sig og nýta þau tækifæri sem eru til staðar getur staða Íslands mjög fljótt orðið betri en flestra annarra ríkja.