139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:17]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Nú þegar líður að lokum umræðu um fjárlög fyrir árið 2011 vildi ég stíga í ræðustól og tjá mig um tvö eða þrjú atriði. Það sem ég gerði að umtalsefni við 2. umr. var fyrst og fremst niðurskurður í heilbrigðisþjónustu sem boðaður var við framlagningu frumvarpsins þar sem allt of langt var gengið. Ekki var eðlilegt að slíkar strúktúrbreytingar væru boðaðar í fjárlagagerð án umræðu og samráðs við aðila í greininni. Þetta gagnrýndi ég strax frá fyrsta degi og tilkynnti í mínum þingflokki að ég gæti aldrei staðið að þeirri aðgerð. Sem betur fer hefur það gerst að með nýjum hæstv. heilbrigðisráðherra, Guðbjarti Hannessyni, var gengið í verkið, fundað með aðilum og farið betur í gegnum það í ráðuneytinu. Út úr því kom tillaga þar sem 1.200 millj. kr. af þessum 3 sem settir voru inn, voru dregnir til baka. Það var mjög gott. Það sýndi það líka að allt of bratt var farið í þessar tillögur, hugmyndirnar sem þarna voru settar fram voru allt of brattar og hægt að breyta þeim.

Í þeirri vinnu voru hlutir jafnframt teknir til hliðar sem mundu ekki nást á árinu 2011. Það er kallað að flytja það yfir á árið 2012, sem gerði um 500–600 millj. kr., 560 millj. ef ég man töluna rétt sem talað var um að mundi flytjast yfir á árið 2012. Ég get sagt það, virðulegi forseti, og skal segja það einu sinni enn, að árið 2012 í þessum skilningi mun aldrei koma að mínu mati. Tillögurnar sem þar eru settar fram eru hugmyndir sem eru í vinnslu. Við erum alls ekkert að ræða fjárlög 2012. Þess vegna lít ég á að þær séu líka farnar frá okkur alveg eins og varanlegu 1.200 millj. sem voru teknar frá.

Ég vil líka trúa því, virðulegi forseti, að vinna hv. fjárlaganefndar þar sem boðaður var niðurskurður á tveimur stofnunum sem áttu að fá mestan niðurskurðinn úr 12% niður í 10%, þ.e. Heilbrigðisstofnun Sauðárkróki og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, fannst mér til bóta og gott að það væri gert. Mér finnst að ég hafi fengið vísbendingar bæði með því að haft hefur verið samband og ekki hefur verið haft samband út af þeim. Kannski að aðilar á þessum stöðum sem reka þessar stofnanir telji sig geta lagt sitt af mörkum hvað þetta varðar miðað við tillögurnar fyrir árið 2011. Það er alveg rétt, virðulegi forseti, það er full ástæða fyrir Alþingi, ríkisstjórn og okkur sem stöndum í þessum blóðuga niðurskurði, eftir hið mikla fjármála- og efnahagshrun, að þakka sérstaklega öllu starfsfólki í heilbrigðisgeiranum fyrir vel unnin störf og stjórnendum fyrir vel útfærðar tillögur, sársaukafullar tillögur við niðurskurð, sem við á Alþingi skipuðum að gera með fjárlagagerð.

Mér finnst það undravert hvað margir í heilbrigðisgeiranum hafa náð því vel í gegn. Það hefur verið vel gert og fyrir það ber að þakka alveg sérstaklega. Það á við um allar stofnanir ríkisins, misjafnlega mikið að sjálfsögðu, en að sjálfsögðu á það að vera. Ég þekki það sem fyrrverandi ráðherra samgöngumála að fjölmargar stofnanir heyrðu undir mitt ráðuneyti og heyra enn undir það ráðuneyti. Þar voru lagðar fram harðar og miklar tillögur til niðurskurðar sem voru 10% í fyrra og 10% fyrir næsta ár, eða 10% fyrir þetta ár og 10% fyrir næsta ár. Það var undravert hvað það tókst í raun og veru vel að útfæra niðurskurðartillögurnar með fullu samstarfi við starfsfólkið. Það er langmikilvægast í svona erfiðleikum og hremmingum sem við erum í þar sem draga þarf saman seglin, skera niður og annað. Þá er langbest að vinna það með starfsfólkinu og fá það í lið með sér vegna þess að það veit manna best hvar hægt er að spara. Það er þá líka viljugra til þess að taka þátt í niðurskurði og gefa jafnvel eftir af launum sínum og annað. Þetta fann ég á vettvangi samgöngumála og segi enn að það var ótrúlega auðvelt að framfylgja þeim niðurskurði. Sem dæmi er niðurskurður í vetrarþjónustu Vegagerðarinnar eins og sagt var. Það var í raun og veru spólað til baka til ársins 2007. Eftir niðurskurð var þjónustan jafnvel betri en hún var 2007. Með öðrum orðum í góðærisruglinu þegar allt var tekið að láni var líka tekin að láni þjónustan sem sett var upp á svo mörgum stöðum í hinu opinbera kerfi.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að breytingartillögurnar sem komu fram við 2. umr. og þær sem núna eru komnar plús hugmyndir hæstv. heilbrigðisráðherra um samráð með öllum stofnunum varðandi næstu missiri og næstu ár eru til mikillar fyrirmyndar. Eini gallinn á því er að það var ekki gert í upphafi. Það hefði verið betra að það hefði verið gert strax þegar tillögurnar komu fram. Ýmsar tillögur sem þar eru inni og eru allra góðra gjalda verðar til frekari útfærslu og skoðunar og til hagræðingar og breytinga — meira að segja þær góðu tillögur voru stórskemmdar með þessum flumbrugangi sem þar var.

Þetta vildi ég segja um heilbrigðismálin, virðulegi forseti. Ítreka það sem ég hef hér farið yfir og fór yfir í 2. umr.

Hitt atriðið sem ég vildi ræða um og hef heyrt í dag við 3. umr. er atriðið sem sett er í breytingartillögur þar sem sótt er um heimild upp á 6 millj. kr. fyrir ríkissjóð til að bjóða út á almennum skuldabréfamarkaði skuldabréf sem tekið yrði að láni og síðan lánað til tveggja félaga sem ætlunin er að stofna nú á næstu missirum til að inna af hendi ákveðnar vegaframkvæmdir samkvæmt samþykktum lögum frá Alþingi 16. júní síðastliðinn með 45 eða 47 samhljóða atkvæðum. Enginn var á móti og fulltrúar úr öllum flokkum samþykktu að stofna þessi félög og fara í vegaframkvæmdir fyrir tæplega 40 millj. kr. með virðisaukaskatti á fjögur verkefni og taka til þess lán. Þessi félög mundu framkvæma þessi verk á næstu fjórum til fimm árum. Þetta eru allt saman góð verk og mikið umferðaröryggismál. Félögin taka til þess lán og endurgreiða það með seinni tíma útfærðum notendagjöldum sem tækju gildi þegar vegaframkvæmdum lyki árið 2015.

Ég geri þetta að umtalsefni, virðulegi forseti, vegna umfjöllunar fjölmiðla síðustu daga sem upphófst m.a. þegar fulltrúar Félags íslenskra bifreiðaeigenda komu fram með alls konar ranghugmyndir og vitleysishugmyndir. Þeir settu fram hluti sem ekki eru réttir. Það er full ástæða að ræða það hér og reyndar víða í þjóðfélaginu. Þessar hugmyndir og frumvarpið sem varð að lögum heimilaði sem sagt að gera þetta. Það kom svo til framkvæmda og er í raun og veru enginn munur á, virðulegi forseti, þeim hugmyndum sem fyrst var farið af stað með. Félögin mundu síðan bjóða út skuldabréf, taka að láni til vegaframkvæmdanna, sem ekki gekk upp í viðræðum við lífeyrissjóðina að þessu sinni. Ég segi „að þessu sinni“ vegna þess að vextirnir sem lífeyrissjóðirnir vildu fá voru miklu hærri en eðlilegt var að ríkið mundi borga fyrir þessa öruggu framkvæmd sem vegaframkvæmdirnar væru. Þess vegna var viðræðunum slitið. En ríkisstjórnin brást vel við þessu. Daginn eftir tók hún það fyrir í ríkisstjórn og samþykkt var að fara í þessi verkefni og breyta fjáröflun fyrir næsta ár. Það þarf nefnilega ekki meira en 6 millj. á næsta ári, þar sem verkin eru að fara í gang, og afla þeirra með almennum skuldabréfaútboði ríkissjóðs. Upphæðin er ekki hærri. Þetta dugar innan fjárlagarammans og lánsfjárþarfar og þess sem gera má gagnvart samningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að lána peningana til vegaverkefnanna, framkvæmdanna. Það er alveg klárt að þessi félög munu framkvæma verkið og endurgreiðslan verður á þennan hátt.

Ég harma umfjöllunina, virðulegi forseti. Ég veit til þess að vinnugögn sem unnið var með og við fulltrúar ríkisins áttum voru afhent viðsemjendum vegna þess að allt var uppi á borðinu og viðræðurnar voru í trúnaði. Öll vinnugögn voru afhent og ég segi vinnugögn, hugmyndir sem ekki var búið að móta, voru sem sagt afhent öllum aðilum. Það eru þessi gögn sem hafa ratað til fjölmiðla. Síðan er aðeins lítill hluti tekinn af þeim og settur upp sem voðalegt dæmi gagnvart veggjöldum og okri. Ég veit ekki hvað og hvað er verið að tala um.

Virðulegi forseti. Eitt af því sem ég gerði sem samgönguráðherra þegar ég flutti frumvarpið og í aðdraganda þess að ég heimsótti alla þingflokka sem sæti eiga á Alþingi, þá kynnti ég hugmyndirnar. Þar á meðal var kynnt hugmyndin og boðuð að samgönguráðherra mundi í framhaldi af því ef viðræðurnar gengju eftir og okkur mundi takast að koma verkum í gang, þá yrði skipuð formlega þverpólitísk nefnd fulltrúa allra þingflokka á Alþingi sem færi í að vinna og útfæra hugmyndirnar sem settar voru fram sem vinnugagn. Margar hugmyndir komu upp hvernig ætti að útfæra þetta en engin er klár. Þessi þverpólitíska formlega nefnd sem hefði tíma til að vinna til ársins 2015 mundi útfæra þær á sem sanngjarnastan, bestan og heiðarlegastan hátt. Það er það, virðulegi forseti, sem liggur fyrir okkur stjórnmálamönnum á Alþingi að setja þessa vinnu í gang. Ég vona að það sé enn þá þannig að hin breiða samstaða sem var um frumvarpið á sínum tíma varð m.a. til þess að gefa í hvað atvinnuuppbyggingu og atvinnumál varðar í mannvirkjageiranum hér á landi. Þetta hefur gríðarlega mikil áhrif og innspýtingu í það. Ég vona að samstaðan haldi áfram sem myndaðist um frumvarpið sem samþykkt var. Þar sem eins og áður sagði, virðulegi forseti, 43 eða 45 alþingismenn úr öllum flokkum samþykktu frumvarpið og gerðu að lögum. Það bíður svo vinnan að útfæra þessi atriði. Ég hika ekki við að halda því fram að hin þverpólitíska nefnd mun og getur fundið sanngjarna leið til endurgreiðslu á þessu.

Þetta vildi ég gera að umtalsefni, virðulegi forseti, í umræðunni hér nú þegar fjárlagavinnu er að ljúka. Ég fagna því hvað ríkisstjórnin tók fast á því og hressilega að ákveða, þrátt fyrir viðræðuslit við lífeyrissjóðina, að hrinda þessum stóra atvinnupakka, stórátaki í samgöngumálum, til framkvæmda sem verða árin 2011, 2012, 2013, 2014 og fram á árið 2015. Ég ítreka það sem ég segi og harma um leið að ranghugmyndir og vinnugögn sem ekkert er farið að vinna með, ekki klárað og engar ákvarðanir hafa verið teknar um, séu tekin og notuð til þess að afbaka umræðuna um þetta. Það er eðlilegt að það séu skiptar skoðanir um að fara þá leið sem nágrannaþjóðir okkar hafa farið lengi. Ég get bara tekið sem dæmi að í gær átti ég fund á Akureyri út af byggingu Vaðlaheiðarganga með aðilum sem þar eru og ætla að leggja fram allt að 200 og jafnvel 300 millj. kr. hlutafé. Þetta eru fulltrúar sveitarfélaga og nokkurra fyrirtækja á Norðurlandi. Þessu var í raun og veru fagnað og ákveðið að stíga næstu skref. Útvíkka félagið og koma því í stand. Koma verkinu til forvals. Þá geta menn séð fram á að verkið geti farið í gang um mitt næsta ár. Við búum að fjögurra, fimm ára undirbúningsvinnu fyrirtækjanna sem heitir Greið leið sem var búin að vinna alla undirbúningsvinnu, hönnun, rannsóknir, skipulagsvinnu og fá fram að ekki þyrfti umhverfismat. Þar er gert ráð fyrir 100% veggjaldi. Það er sett inn allt sem hægt er með útreikningum og líkönum sem gerð hafa verið. Það er alveg viðráðanlegt gjald, ekkert of hátt. Enda sáum menn strax í viðræðunum að gjaldið mætti ekki fara upp fyrir ákveðna upphæð, þá mundi þetta ekki borga sig.

Virðulegi forseti. Hringvegurinn styttist um 16 kílómetra aðra leið. Það kostar sitt að aka 16 kílómetra samkvæmt útreikningum. Mér skilst að taxti opinberra starfsmanna sé í kringum 100 kr. í dag ef ég man rétt, þá væru það 1.600 kr. sem mundu sparast. Umræðan í vinnugögnunum sem við vorum með var miklu lægri heldur en það.

Síðan er það í lokin, virðulegi forseti, að niðurstaða á útboðum, framkvæmdakostnaði, hverjir vextirnir verða og umferðarmagn, verður það sem mun ráða því hvað þarf að innheimta af umferðinni til þess að borga upp lánin. Það verður líka hlutverk þessarar þverpólitísku nefndar að útfæra það og setja það fram. Þeirrar nefndar bíður líka vinnan hvort við stígum skrefið til fulls og gerum þetta upp á rafrænan hátt í gegnum gervihnött. Hvort við erum tilbúin til þess og munum stíga skrefið sem ég hika ekki við að halda að verði það besta, þar sem m.a. mætti leggja niður olíugjald og bensíngjald í leiðinni og taka þetta allt í einu gjaldi. Síðast en ekki síst, virðulegi forseti, að jafna milli ökutækja án tillits til hver eldsneytisgjafinn er. Í dag er það þannig að umhverfisvænir bílar sem keyra um þjóðvegi landsins borga ekki krónu í vegasjóð, hvorki til uppbyggingar né reksturs vegakerfisins. En bíll sem keyrði á eftir þeim, bensín- eða dísilbíll, borgar mikið í vegasjóð. Þetta þarf að jafna af því við ætlum að fjölga umhverfisvænum bílum á Íslandi, en við þurfum líka tekjur til þess að reka vegakerfið og byggja það upp.

Virðulegi forseti. Nú þegar umræðan er að verða búin um fjárlögin, þá er það rétt sem sagt hefur verið að þetta séu erfiðustu fjárlögin sem við göngum í gegnum. Tillögurnar sem fram eru komnar og hafa verið unnar í fjárlaganefnd sýnast mér allar vera mjög vel settar fram. Þetta eru margar erfiðar ákvarðanir sem þarf að taka. Þetta er ekkert létt verk. Þetta eru ekki ánægjulegustu atkvæðagreiðslur sem menn standa í en þetta er það sem Ísland er í, það sem íslenska þjóðin lenti í og ég ætla ekkert að fara aftur í það til að ýfa upp umræðu hvað það varðar. Þetta er verkefni sem þarf að vinna og þetta eru ekki léttar aðgerðir. Ég hika ekki við að halda því fram, virðulegi forseti, að næsta ár verður árið sem við förum að þokast upp á við. Ég hika ekki við að halda því fram að hagvöxtur á næsta ári verði meiri en spáð er. Ég er þess fullviss að ýmsar framkvæmdir sem við höfum talað um síðustu ár og hafa ekki komist í gagnið — ég gerði það að umtalsefni við 2. umr. — munum við sjá þær þokast af stað í upphafi nýs árs. Ég hika ekki við að halda því fram að aðilar suður með sjó munu ná saman um orkuverð um byggingu álversins. Vegaframkvæmdirnar hafa áhrif þó þær komi af meiri krafti inn árin sem koma þar á eftir. Svona má lengi telja.

Þannig að ég, virðulegi forseti, ítreka það sem ég sagði í 1/3 af minni ræðu að hagvöxtur og ekkert annað en aukinn hagvöxtur verður það sem að lokum vinnur okkur út úr kreppunni. Við þurfum að sameinast um að auka hagvöxtinn með öllum tiltækum aðgerðum sem til eru. Það er verkefni sem bíður okkar og ég hika ekki við að halda því fram. Ég er bjartsýnn á árið 2011. Það verður árið þar sem viðsnúningurinn verður. Það verður árið sem við byrjum að vinna okkur upp úr kreppunni af fullum krafti.