139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:40]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta og tek undir með honum að við framsóknarmenn erum ákaflega hrifnir af því þegar fjármunum er varið í að skapa atvinnu í landinu. Ég móttek þakklæti hans til okkar og get sagt, eins og ég sagði í ræðu fyrr í dag, að mjög mikilvægt er að fara í slíkar framkvæmdir. Þótt ég sé á móti vegtollum vil ég endilega, ef það er illskásti kosturinn, að farið sé í slíkar framkvæmdir.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þm. Kristján L. Möller um forgangsröðun á því sem ég hef áður rætt. Hann nefndi sunnanverða Vestfirði. Það er mjög mikilvægt að farið sé í lagfæringar á vegum þar enda eru þeir hálfgerðar samgönguminjar. Ég hef aðeins kynnt mér hvernig forgangsröðunin er í vegaframkvæmdum hér. Ég geri ekki athugasemd við hana, umferðaröryggi skiptir þar mjög miklu máli. (Forseti hringir.) En einhvern tímann verðum við að fara í þessar framkvæmdir. Hvenær eigum við að gera það?