139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég kann vel við þær áherslur sem koma skýrt fram í máli hv. þm. Kristjáns Möllers, menn auka ekki hagvöxtinn með aukinni einkaneyslu eða lántökum. Hv. þingmaður hefur skilning á því að við þurfum fyrst og fremst verðmætasköpun í íslensku samfélagi. Því miður hefur hann allt of fáa fylgismenn varðandi þessi sjónarmið innan stjórnarflokkanna, svo betur má ef duga skal.

Ég vil gjarnan spyrja hv. þingmann nokkurra spurninga. Framkvæmdafé til suðvesturhornsins í samgöngumálum hefur á árunum 2008 og 2009 lækkað niður í um 10% en var um 20%. Telur hv. þingmaður það vera ásættanlegt?

Í öðru lagi, ef af þessum stórframkvæmdum á suðvesturhorninu verður, sem ég vona svo sannarlega, þýðir það að hluti framkvæmdafjár til suðvesturhornsins af fjárlögum muni skerðast enn frekar? Verður féð enn lægra en þessi 9,8% sem það er í dag? Það er sem sagt önnur spurningin.

Í þriðja lagi vil ég gjarnan fá að vita viðhorf hv. þingmanns til þeirra sjónarmiða sem komu fram á Pressunni hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni þar sem hann talar um útfærslu á innheimtum veggjöldum. Hv. þm. Kristján Möller hefur sagt að við þurfum að ná samstöðu um hvernig við útfærum þetta. En Björgvin G. segir m.a., með leyfi forseta: „Fyrirkomulag gjaldtökunnar …“

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmann á að nefna þingmenn fullu nafni.)

Já, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, segir m.a. með leyfi forseta, á Pressunni:

„Fyrirkomulag gjaldtökunnar hefur ekki endanlega verið útfært en aldrei hefur komið til álita á neinum tímapunkti í umræðu innan þingsins, þingflokka eða þingnefnda að innheimta gjöld út frá eknum kílómetrum í stað samræmdrar gjaldtöku enda myndi það mismuna fólki gróflega út frá búsetu.“

Síðan segir hann:

„Þetta er mikilvægt að árétta til að umræðan um stórframkvæmdir í samgöngumálum og upptöku notendagjalda að hluta í stað eldsneytisskatta sé á réttum forsendum og verði ekki til þess að afvegaleiða umræðu um mikilvægt mál …“

Telur hv. þingmaður að hæstv. samgönguráðherra núverandi, Ögmundur Jónasson, hafi afvegaleitt umræðuna? Og er hann sammála hv. þm. Björgvin G. Sigurðssyni sem og fleirum í þinginu (Forseti hringir.) að kílómetragjaldið sé ekki rétta leiðin?