139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður hefði hlustað á ræðu mína fyrr í dag þá ítrekaði ég einmitt þetta. Við þurfum að ná þverpólitískri samstöðu og sátt um þetta mikilvæga mál, þ.e. efla samgönguframkvæmdir á suðvesturhorninu til að skapa atvinnu, til að skapa verðmæti. Þannig að ég undirstrika það.

Ég tek undir það sem mér finnst hv. þingmaður Björgvin G. Sigurðsson segja í grein sinni, ég tel hæstv. samgönguráðherra hafa afvegaleitt umræðuna og skapað óþarfa óróa í þingsal og ekki síst hjá íbúum, hvort sem þeir eru á suðvesturhorninu eða fyrir austan fjall. Ég tel að þetta hafi verið óþarfi af því við eigum svo auðveldlega að geta sameinast um þetta mál. Þetta vildi ég sagt hafa.

Í öðru lagi vil ég ítreka spurningu mína varðandi framkvæmdafé til höfuðborgarsvæðisins. Mun það lækka enn frekar, hrapa úr tæpum 10% í einhverja enn lægri tölu? (Forseti hringir.) Þá þurfum við að ræða það frekar á þingi.