139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

219. mál
[23:20]
Horfa

Frsm. viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum.

Við umfjöllun nefndarinnar um málið bárust athugasemdir um að verið væri að leggja verulegar fjárhagslegar byrðar á fjármálafyrirtæki. Þá kom fram að óeðlilegt væri að eftirlitsskyldir aðilar þyrftu að greiða fyrir stjórnsýsluþátt í starfsemi stofnunarinnar. Þess ber að geta að hluti af hækkun rekstrarkostnaðar Fjármálaeftirlitsins stafar af auknum kostnaði vegna herts eftirlits, rannsókna í tengslum við bankahrunið, flutnings í nýtt og stærra húsnæði, reksturs tölvubúnaðar vegna fjölgunar starfsmanna og kaupa á sérfræðiþjónustu. Fjármálaeftirlitið áætlar að kostnaður við rannsóknarvinnu vegna bankahrunsins fari úr 148 millj. kr. árið 2010 í 220 millj. kr. árið 2011. Gert er ráð fyrir að fallin fjármálafyrirtæki beri þennan kostnað að fullu með greiðslu eftirlitsgjalds. Nefndin telur mikilvægt að gætt verði aðhalds í rekstri eftirlitsins en hefur jafnframt skilning á nauðsyn þess að eftirlitið sé í stakk búið að sinna öflugu eftirliti með starfsemi fjármálafyrirtækja.

Mikilvægt er að mati nefndarinnar að efnahags- og viðskiptaráðherra skoði annars vegar leiðir til að tryggja meiri sátt um hvernig Fjármálaeftirlitið fer með umsagnir samráðsnefndarinnar og hins vegar hvort ástæða sé til að koma á fót formlegum og reglubundnum samráðsfundum þar sem eftirlitið og eftirlitsskyldir aðilar fengju tækifæri til að ræða starfshætti eftirlitsins.

Virðulegi forseti. Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu: Til skýringar eru í fyrsta lagi lagðar til orðalagsbreytingar á ákvæðum um álagningu fastagjalds á lífeyrissjóði, útgefendur hlutabréfa og útgefendur skuldabréfa. Í öðru lagi er lagt til að við 1. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr töluliður þar sem mælt verði fyrir um eftirlitsgjald Lánasjóðs sveitarfélaga en starfsemi hans er einsleit og áhættulítil. Nefndin leggur til að lánasjóður sveitarfélaga ohf. greiði í eftirlitsgjald 0,00837% af eignum sínum samtals en þó ekki lægri fjárhæð en 600.000 kr. Þess má geta að Fjármálaeftirlitið fellst á þá skoðun nefndarinnar að Lánasjóður sveitarfélaga hafi nokkra sérstöðu meðal lánafyrirtækja, bæði vegna eignarhalds og heimilda til lánveitinga sem eru áhættulitlar. Þá er í þriðja lagi lögð til orðalagsbreyting á 9. mgr. 2. gr. í þá veru að í stað orðsins ,,félag“ komi „fyrirtæki“ til að samræmi sé í hugtakanotkun í málsgreininni.

Við afgreiðslu málsins voru fjarverandi Guðlaugur Þór Þórðarson, Eygló Harðardóttir, Sigurður Kári Kristjánsson og Valgerður Bjarnadóttir.

Undir nefndarálitið rita Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Skúli Helgason, Atli Gíslason og Margrét Tryggvadóttir.