139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Nú eru liðnar u.þ.b. fjórar vikur frá því að við hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem sæti eigum í hv. viðskiptanefnd óskuðum eftir fundi í nefndinni til að ræða um söluferlið á Sjóvá sem nú hefur farið út um þúfur og óskuðum eftir því að til fundarins kæmu seðlabankastjóri, framkvæmdastjóri eignarhaldsfélags Seðlabankans og fulltrúar kaupenda sem nú hafa sagt sig frá kaupunum.

Formaður viðskiptanefndar, hv. þm. Lilja Mósesdóttir, hefur gert sitt til að reyna að koma fundinum á en svo virðist sem seðlabankastjórinn sé tregur í taumi. Að minnsta kosti hefur hann ekki mætt til fundar við nefndina til að gera grein fyrir sér og sínum embættisfærslum. Mjög alvarlegar athugasemdir hafa verið gerðar við embættisfærslur Seðlabankans í tengslum við þetta söluferli og m.a. hefur kvörtun um þær verið beint til umboðsmanns Alþingis. Sömuleiðis hefur það verið boðað að hugsanlega verði óskað eftir opinberri rannsókn á málinu. Af þessum ástæðum óskuðum við eftir fundi í nefndinni til að ræða hvers vegna söluferlið fór út um þúfur en einnig vegna þess að í húfi eru gríðarlegir hagsmunir fyrir ríkið, milljarðahagsmunir. Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við það að Seðlabankinn eigi og reki tryggingafélag og við þurfum að fá upplýsingar um hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Ætlar ríkið eða Seðlabankinn að halda áfram að eiga og reka fyrirtækið, eða hver eru framtíðaráformin?

Virðulegi forseti. Það er algjörlega óásættanlegt ef embættismenn komast upp með að sinna ekki óskum þingmanna um að mæta á fundi (Forseti hringir.) í nefndum þingsins enda held ég að hvergi á byggðu bóli viðgangist slíkt.

Ég kveð mér hljóðs, virðulegi forseti, til að vekja athygli á þessari stöðu (Forseti hringir.) sem ég tel algjörlega óásættanlega fyrir viðkomandi nefnd —

(Forseti (ÁRJ): Forseti vekur athygli þingmannsins á því að tíminn er löngu liðinn.)