139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson vildi velta sér upp úr því að stjórnarþingmenn hefðu trúlega sofið á meðan ítarlega var farið yfir fjárlagafrumvarpið í þingflokkum stjórnarflokkanna. Eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir rakti ágætlega er auðvitað ramminn ræddur og farið yfir fjárlagaforsendurnar í þingflokkunum en síðan er útfærslan unnin fram á síðustu stundu. Auðvitað hefur enginn þingmaður séð fjárlagafrumvarpið fyrr en það er kynnt opinberlega. Það gerðist með þetta fjárlagafrumvarp í þessu tilfelli og þeir stjórnarþingmenn sem gagnrýndu þá hvernig fjárlögin kæmu niður á heilbrigðisgeiranum höfðu að sjálfsögðu ekki tekið þátt í þeirri vinnu eða hunsað hana á nokkurn hátt. Þeir litu fjárlagafrumvarpið í þeirri mynd sem það endanlega birtist sama daginn og það var kynnt.

Þar urðu mistök, það höfum við sagt og við segjum kinnroðalaust að þeim megin í fjárlagafrumvarpinu hafi orðið mistök og vegna þess að bæði hlutaðeigandi ráðherrar, ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafa manndóm í sér til að viðurkenna mistök lítur fjárlagafrumvarpið öðruvísi út núna. (Gripið fram í.) Það að vera stór stjórnmálamaður og heill er að játa mistök sín og leiðrétta þau. (Gripið fram í.) Ég sé að tíminn er á þrotum, frú forseti, þannig að ég hef ekki ráðrúm til að koma inn á fleira sem ég hefði viljað ræða.