139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Í dag er 16. desember og það er hálft ár síðan hv. þm. Óli Björn Kárason lagði fyrirspurn fyrir hæstv. forsætisráðherra, skriflega fyrirspurn sem hæstv. forsætisráðherra hefur 10 virka daga til að svara. Ég spurði í gær hvort í dag yrði gert eitthvað í tilefni dagsins, svona út af jólunum og þeirri stemmningu, en þá kom svar, virðulegi forseti. Ég vildi upplýsa þingið um að ég veit að hér er verið að leyna þingið upplýsingum og þetta svar er yfirhylming yfir einstaklingum sem eru nátengdir forustumönnum í ríkisstjórninni.

Ég er búinn að koma oft upp til að kvarta yfir útúrsnúningum í svörum frá hæstv. ráðherrum. Það er nýlunda, þetta gerðist ekki áður en þessi hæstv. ríkisstjórn byrjaði, í það minnsta ekki í langan tíma. Nú er hins vegar gengið skrefinu lengra og nú reynir á hvort hv. forsætisnefnd ætlar að standa vörð um þingið og fara fram á að Ríkisendurskoðun skoði þetta mál. Ég fer fram á að það verði gert. Ég mun veita Ríkisendurskoðun allar umbeðnar upplýsingar og nú kemur í ljós hvort menn meina eitthvað með því þegar þeir tala um að standa vörð um þingið þannig að það geti sinnt eftirlitsskyldu sinni og rækt sitt hlutverk.