139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

kynning fjárlagafrumvarps í stjórnarflokkunum -- nefndarfundur vegna söluferlis Sjóvár -- veggjöld o.fl.

[10:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi nota tækifærið og taka undir með hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni sem formaður efnahags- og skattanefndar og segja að ég sjái ekki miklar líkur til að það verði almenn sátt um að innheimta 7 kr. á hvern ekinn kílómetra og tugi þúsunda af fólki fyrir það eitt að eiga leið til vinnu sinnar á degi hverjum.

Svo er rétt að staðfesta orð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Eftir spurningu frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í gærkvöldi svaraði ég því til að auðvitað hefðu þingmenn stjórnarflokkanna verið upplýstir um stóru línurnar í fjárlagafrumvarpinu áður en það var lagt fram. (Gripið fram í: En hvað …?) Það er auðvitað þannig. Þingmenn voru það raunar allir, bara [Kliður í þingsal.] í áætluninni um ríkisfjármál sem var kynnt á síðasta ári. (Gripið fram í: Voruð þið þá …?) En það er auðvitað dásamlegt að heyra þau gamaldags viðhorf hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að með því að heimila fjárlagafrumvarpið og styðja framgang þess hafi þingmenn stjórnarliðsins allir sem einn afsalað sér réttinum til að gera athugasemdir við einstaka liði eða vera á móti niðurskurði á tilteknum stofnunum hér og þar um landið. Auðvitað er hin þinglega meðferð til þess að menn rýni í útfærslurnar innan rammanna, skoði hvernig niðurskurðurinn er tekinn frá einni stofnun til annarrar. Auðvitað hlustar stjórnarmeirihlutinn á slíka gagnrýni og gerir breytingar, annað en var í tíð kerruhestanna í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum (Gripið fram í.) þar sem Einar K. Guðfinnsson ráðherra lagði fram frumvarp og lét meiri hlutann stimpla það í þinginu [Frammíköll í þingsal.] en leyfði þeim í staðinn að úthluta svo sem eins og 700 millj. kr. á ári í milljón króna styrkjum í kauptúnum hringinn í kringum landið (Gripið fram í.) svo þeir héldu einhverri sjálfsvirðingu (Gripið fram í.) við þá færibandaafgreiðslu fjárlagafrumvarpa sem tíðkaðist í ráðherratíð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.)