139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

kynning fjárlagafrumvarps í stjórnarflokkunum -- nefndarfundur vegna söluferlis Sjóvár -- veggjöld o.fl.

[10:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég lagði fram tvær spurningar í afar góðum hug um það hvernig staðið hefði verið að undirbúningi þessa fjárlagafrumvarps. Það er eins og að ég hafi hitt á snöggan blett í Samfylkingunni því að þingmenn flokksins koma hér upp hver á fætur öðrum og rymja og emja undan þessum spurningum. Spurningarnar sem ég spurði voru eftirfarandi:

Var fjárlagafrumvarpið nægilega vel kynnt í þingflokkum stjórnarflokkanna eða voru þingmenn stjórnarflokkanna sofandi þegar málið var afgreitt?

Nú liggur svarið skýrt fyrir. Þeir segja: Við vorum ekki sofandi, heldur samþykktum glaðvakandi og með fullri meðvitund að leggja fram fjárlagafrumvarp án þess að vita hvað í því stæði. Okkur var sagt frá meginlínum, hvar skattarnir ættu að liggja, í stórum dráttum hvar ætti að skera niður, hvernig rammarnir ættu að líta út en við samþykktum samt sem áður að leggja fram fjárlagafrumvarp án þess að vita hvað í því stóð. Það er það sem um er að ræða.

Hv. þm. Helgi Hjörvar segir að þingmennirnir hafi verið upplýstir um stóru línurnar. Eru það ekki stórar línur sem eru lagðar í fjárlagafrumvarpinu þar sem verið er að marka stefnu um hvernig eigi að skipa heilbrigðismálum úti á landsbyggðinni? Var það ekki hluti af þessum stóru línum? (Gripið fram í.) Það var ekki, eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði: Okkur voru ljósar upphæðirnar en ekki ljóst hvernig þetta kæmi út fyrir einstakar stofnanir. Vitaskuld. En þetta snýst ekki um það. Þetta fjárlagafrumvarp markaði ekki bara stefnu um einstakar stofnanir, það markaði nýja heilbrigðisstefnu úti á landsbyggðinni og ég var að spyrja hvort þingmenn stjórnarflokkanna hefðu virkilega ekki haft hugmynd um að verið væri að leggja fram nýja heilbrigðisstefnu sem sneri að landsbyggðinni í þessu sambandi. Nú virðist sem þeir hafi ekki verið upplýstir um þetta og þá er þeim auðvitað vorkunn en þetta segir okkur þá mikla sögu um undirbúning fjárlagagerðarinnar. Þetta snýst ekki um að gera einhverjar minni háttar breytingar á fjárlagafrumvarpinu, (Forseti hringir.) þetta snýst um stefnumörkun. Nú liggur það fyrir að þeir voru í þoku, þeir höfðu ekki hugmynd um hvað var að gerast en samþykktu samt sem áður fjárlagafrumvarpið (Forseti hringir.) og bera á því fulla ábyrgð. [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um ró í salnum.)