139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[11:28]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við göngum nú til atkvæða um fjárlagafrumvarp ársins 2011. Það hefur fengið ítarlega umfjöllun í fjárlaganefnd og öðrum nefndum þingsins. Fjárlaganefnd hefur haldið nokkra tugi funda um þetta fjárlagafrumvarp, kallað til sín fjölda gesta og leitað ráða víða í samfélaginu við að gera þetta fjárlagafrumvarp sem best úr garði. Um það er ekkert meira að segja að sinni, umræðan í þinginu í haust og síðast í gær segir það sem segja þarf um þetta frumvarp og engu er við það að bæta.

Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem komu að gerð þessa frumvarps, þar á meðal hv. þingmönnum í fjárlaganefnd og öðrum nefndum þingsins, og ekki síst starfsmönnum þingsins, starfsmönnum fjárlaganefndar og öllum þeim sem hafa lagt mikið á sig til að búa frumvarpið í þann búning sem það er í hér í dag og við erum að greiða atkvæði um. Bestu þakkir fyrir það. (Gripið fram í: Bestu þakkir …)