139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[11:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Í þessum tillögum er lagt til að lækka tryggingagjaldið um 6 milljarða kr. Ég tel mikilvægt að rifja það upp að þegar tryggingagjaldið var hækkað á sínum tíma, þegar atvinnuleysið jókst, komu Samtök atvinnulífsins mjög jákvætt að því borði og tóku vel í að hækka það. Þá voru ákveðin loforð um að menn mundu lækka það þegar atvinnuleysið minnkaði þannig að þetta er mikið réttlætismál. Núna er tekið of mikið tryggingagjald af fyrirtækjunum og sveitarfélögunum í landinu. Við sáum það í afgreiðslu fjáraukalagafrumvarpsins þar sem fjárfesting hefur ekki verið minni á lýðveldistímanum og það er skýrt dæmi um að við verðum að minnka tryggingagjaldið til að koma hér hagvexti og fjárfestingu af stað aftur. Því til viðbótar vil ég árétta, virðulegi forseti, að núna er ríkisstjórnin að hæla sér mikið af árangri í ríkisfjármálunum en hún tekur 3 milljarða kr. frá sveitarfélögunum í landinu í formi tryggingagjalds. Það eru nú afrekin, (Forseti hringir.) að láta aðra skera niður og færa tekjur frá sveitarfélögunum til sín. Það eru mikil afrek.