139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[11:47]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um skattatillögur ríkisstjórnarinnar. Það sem vantar hins vegar í þetta skjal er það að ríkisstjórnin er ekki bara að sækja sér 11 milljarða kr. í skatttekjur til einstaklinga og fyrirtækja, hún er líka að svíkja gefin loforð um að hækka persónuafsláttinn samkvæmt verðlagi, um 3 þús. kr. Þar liggja um 8 milljarðar kr. í hækkun skatta. Það á líka að sækja um 6 milljarða kr. til banka og lífeyrissjóða til að fjármagna vaxtabæturnar, það er skattheimta upp á 6 milljarða kr. og það á líka að sækja eina 6 milljarða kr. til íbúa á landsbyggðinni í auknum veggjöldum og það reiknast mér til að séu einnig um 6 milljarðar kr. Samtals er þetta [Kliður í þingsal.] um 31 milljarður kr. (Gripið fram í.) Þetta eru þær tillögur sem voru ræddar í fjárlaganefnd og farið yfir þar. Við framsóknarmenn munum (Forseti hringir.) sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.