139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[11:50]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég hafði óskað eftir því að fá að taka til máls um atkvæðagreiðsluna sem varðar þskj. 517, sérstaklega þá varðandi erfðafjárskatta og skatta á gjafafé. Nú er það tímabil ársins þegar við erum öll að vinna í því að endurspegla gleðina við það að gefa. Flestir eru að leita að jólagjöfum og við erum að hugsa um okkar nánustu og þá sem okkur þykir vænt um. Í þessu vil ég minna á að við getum líka endurspeglað það í gegnum fjárlögin og þess vegna hef ég í hyggju að leggja fram breytingartillögu til að tryggja að líknarfélög sem þiggja gjafafé frá þeim sem hafa í hyggju að gefa í gegnum dánarbú sitt til góðgerðafélaga og sjálfseignarstofnana þurfi ekki að borga skatta af þessu gjafafé. Við höfum skorið mjög mikið niður framlögin til líknar- og góðgerðafélaga. (Forseti hringir.) Verkefni þeirra hafa aldrei verið meiri og ég held að það sé nauðsynlegt að við höfum það í huga og styðjum þá tillögu þegar hún kemur hérna fram.