139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er verið að afgreiða breytingartillögu sem gerir ráð fyrir því að þeir sem búa við kröppust kjörin, eru á lægstu bótunum, njóti þrátt fyrir erfiðar aðstæður í ríkisfjármálum verðlagshækkana á komandi ári þannig að þeir búi við óbreytt kjör að raunvirði. Það er ánægjulegt, þótt í litlu sé, að hægt sé að koma til móts við þá sem þannig standa höllustum fæti. Ástæða er til að leggja áherslu á að eftir gerð kjarasamninga verði kjör þessara hópa tekin sömu tökum og annarra í samfélaginu. Það er alveg ljóst að aðrir hópar í samfélaginu hafa notið launahækkana og að þessir hópar sem búa við lægstu kjörin í landinu mega ekki sitja eftir við gerð kjarasamninganna.