139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er gert ráð fyrir að alls verði varið 7.900 millj. kr. til að bæta stöðu skuldugra heimila. Annars vegar eru það 1.900 millj. kr. viðbót frá 2. umr. í almennar vaxtabætur þar sem útfærðar verða breytingar til að koma í auknum mæli til móts við heimili með þunga skuldabyrði og lágar og miðlungstekjur. En það er einnig gert ráð fyrir 6 milljörðum kr. í tímabundið framlag í tvö ár í sérstakar vaxtaniðurgreiðslur. Þetta er í samræmi við samkomulag ríkisstjórnarinnar við lánastofnanir og lífeyrissjóði um víðtækar aðgerðir vegna skulda og greiðsluvanda heimilanna. Það er gert ráð fyrir að niðurgreiðslan verði almenn og óháð tekjum en falli niður þegar hrein eign skuldara er umfram tiltekin mörk. En fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir fjármagna þessar vaxtaniðurgreiðslur samkvæmt nánara samkomulagi og því er einnig gert ráð fyrir 6 milljörðum á tekjuhlið frumvarpsins. En þessar aðgerðir munu skipta miklu hvað varðar skuldsett heimili og bætt kjör þeirra.