139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hér voru mikil mótmæli þann 4. október sl. — þú manst eftir því, frú forseti? Það varð til þess að ríkisstjórnin hvarf frá fyrri afstöðu sinni um að nóg væri að gert í vanda heimilanna. Það varð til þess að gefnar voru út miklar yfirlýsingar og skapaðar væntingar um að ráðist yrði í almennar aðgerðir til að taka á skuldavanda íslenskra heimila.

Eftir að þessar væntingar höfðu verið skapaðar vann ríkisstjórnin sér tíma með því að láta einhverja svokallaða reiknimeistara reikna og reikna og reikna vikum saman. Niðurstaðan varð síðan sú, eins og hæstv. forsætisráðherra lýsti, að bankarnir og lífeyrissjóðirnir hefðu ekki viljað ráðast í þær aðgerðir sem hefðu verið til skoðunar. Því hefði verið farin allt önnur leið sem bankar og lífeyrissjóðir lýstu sjálfir yfir að kostaði þá ekkert til viðbótar því sem þegar var ráð fyrir gert. Það var aðeins eitt sem sætti tíðindum þegar tillögurnar loksins komu, það var tillagan um niðurgreiðslu á vöxtum. (Forseti hringir.) Og eins og við sjáum hér ætlar ríkið að taka á sig þann kostnað með von um að finna megi upp nýja skatta til að fjármagna þetta. En það er þó jákvætt að eitthvað skuli hafa komið út úr þessari tveggja (Forseti hringir.) mánaða vinnu og það verði þá ráðist í þessar niðurgreiðslur á vaxtakostnaði.