139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram fyrr í haust var gert ráð fyrir að skera meira niður framlög til lækkunar á húshitunarkostnaði en sem svaraði aðhaldskröfunni gagnvart iðnaðarráðuneytinu. Í því birtist mjög skýr forgangsröðun og pólitík núverandi ríkisstjórnar.

Til viðbótar við þetta var lagt fram frumvarp af hæstv. fjármálaráðherra sem fól það í sér að hætta endurgreiðslu á virðisaukaskatti sem leggst á húshitunarkostnaðinn í landinu. Jafnframt var því lýst yfir að þetta yrði bætt með því að leggja fram fjárframlag úr ríkissjóði til að fólk slyppi skaðlaust frá þessum ætlunum ríkisstjórnarinnar. Tekjur ríkissjóðs af því að falla frá endurgreiðslum á virðisaukaskatti eru tæpar 220 millj. kr. Hér er verið að leggja til 140 millj. kr. sérstaklega til þessa, auk 40 millj. kr. almennt til lækkunar á húshitunarkostnaði, þ.e. ríkissjóður er að fá til viðbótar 80 millj. kr. miðað við það sem hér er lagt upp með. (Forseti hringir.) Með öðrum orðum, ríkissjóður er að gera vanda fólks á landsbyggðinni sér að féþúfu. En þetta er þó alla vega skref í áttina til að bæta fyrir ráð ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Þetta er svona „skárra en ekkert framtak“. Því segi ég já.