139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:27]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um fjölmarga liði eins og fram hefur komið og ég vil draga sérstaklega fram nokkra þeirra, lið 4 og 6, framlög til Keilis á Ásbrú, háskólans. Ríkisstjórnin hélt fund á Suðurnesjum þar sem gefnar voru miklar yfirlýsingar eftir fundinn, m.a. sú yfirlýsing að tryggja skyldi rekstrargrundvöll menntastofnana á Suðurnesjum. Við gerðum okkur miklar vonir og höfðum miklar væntingar, Suðurnesjamenn, um að staðið yrði við þau orð. Nú er verið að auka fjármagn til Keilis um 22,6 millj. með þessum tillögum. Það dugar ekki til að tryggja rekstrargrundvöll þessarar stofnunar og ég treysti því, eftir orð allra þeirra sem að þessu máli hafa komið, að gerð verði bragarbót á því hið fyrsta.

Vegna orða hv. þm. Þórs Saaris áðan um meðferðina á heilsuhælinu í Hveragerði, Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, þá er (Forseti hringir.) loksins komin skýringin á því af hverju niðurskurðurinn á þeirri góðu stofnun var aukinn í 18% á milli 1. og 2. umr. (Forseti hringir.) Menn kvörtuðu ekki nóg. Sem betur fer tóku þeir til varna og sá niðurskurður var dreginn niður í 10%, það er þó skárra.