139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:31]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur þegar hún nefndi að það væri mikilvægt að lenda málefnum Keilis. Ég trúi því að svo verði gert. Um daginn héldum við þingmenn Suðurkjördæmis ágætan fund með hæstv. menntamálaráðherra og skólameistara skólans þar sem skilið var þannig við málið að menntamálaráðherra og skólameistari mundu ná samningum um rekstrargrundvöll skólans til framtíðar, nemendaígildafjölda, stærð skólans og umfang.

Ég vil nota þetta tækifæri til að skora á hæstv. menntamálaráðherra að flýta þessu samningsferli og leiða það til lykta þannig að óvissunni um framtíð skólans, stærð og rekstur, verði eytt fyrir áramót. Þá þarf ekki að grípa til einhverra hagræðingaraðgerða út af óvissunni, það verði staðið að fullu við áðurnefnda Suðurnesjayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar með þessu samningsferli þar sem aðilar mætast í viðræðum um framtíð skólans. Ég trúi því að það verði leitt til lykta sem allra fyrst, það skiptir miklu máli fyrir framtíð þessarar merku og góðu (Forseti hringir.) skólastofnunar.