139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:40]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég velti því fyrir mér hvað vaki eiginlega fyrir fólki að reyna að gera þetta mál tortryggilegt. Það er vísað til baktjaldamakks í reykfylltum bakherbergjum. Ég hef reyndar aldrei skilið hvers vegna fólk heldur að baktjaldamakkarar séu allir reykingamenn [Hlátur í þingsal.] en það er önnur saga. (Gripið fram í: Það er bara liðið.) Hér er ekkert baktjaldamakk á ferðinni. Við höfum forgangsraðað öryggi starfsmanna í samkomulagi okkar og ég vara við því að menn reyni að þyrla upp moldviðri (Gripið fram í: Hvað ert þú að … í þessum sal?) í kringum þetta mál. Það hefur náðst ágætt samkomulag milli utanríkisráðuneytisins og væntanlegs innanríkisráðuneytis um að færa Varnarmálastofnun (Forseti hringir.) undir stofnanir sem tilheyra þessu ráðuneyti, tilteknir þættir fara til ríkislögreglustjóra og aðrir verða eftir hjá utanríkisráðuneytinu (Forseti hringir.) og síðan höfum við rætt um (Forseti hringir.) að hafa gott og náið samstarf við utanríkismálanefnd Alþingis um framvindu málsins.