139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það sem hæstv. utanríkisráðherra og innanríkisráðherra, sem gegnir ýmsum öðrum titlum í dag, hafa reynt að breiða yfir í þessari umræðu er auðvitað að þetta verkefni er einungis leyst til fullkominna bráðabirgða rétt fram yfir áramótin og það algjörlega á elleftu stundu. Um miðjan desember komast þeir að einhverju samkomulagi um að bjarga málum þannig að það verði ekki stórskandall, fyrst og fremst varðandi starfsmennina núna um áramótin, en framtíðarfyrirkomulag þessara mála er enn þá fullkomlega óljóst. Á þetta var bent þegar löggjöfin um þetta var samþykkt í fyrrasumar, að allt væri óútfært. Nú, hálfu ári seinna, er allt jafnóútfært og menn eru bara að bjarga sér fram yfir áramótin.