139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég er mjög hlynntur framkvæmdum og það vantar atvinnu í þetta land en ég er ekki hlynntur framkvæmdum sem enginn á að borga. Ég hef aldrei vitað að hægt sé að fara út í framkvæmdir sem enginn greiðir. Og hver skyldi greiða þetta? Það eru skattgreiðendur framtíðarinnar. Við erum nefnilega að veðsetja skattgreiðslur framtíðarinnar. Það stendur til að hækka skatta með veggjöldum og öðru slíku, það er ekkert annað en skattar þannig að við erum að veðsetja skattpeninga framtíðarinnar og það brýtur stjórnarskrána því að það má ekki veðsetja ríkissjóð nema það sé getið um það. Ég er eindregið á móti þessu. Ég tel að hæstv. fjármálaráðherrar framtíðarinnar megi fara út í skattahækkanir sem gefa þeim tekjur eða sleppa þeim en hér er búið að skuldbinda þá. Fjármálaráðherrar framtíðarinnar verða að leggja á þessa skatta. Ég segi nei.