139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[13:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Áðan greiddum við atkvæði um að hæstv. heilbrigðisráðherra fengi 170 millj. kr. í pott og menntamálaráðherra fengi einar 50–60 millj. kr. í pott, heimild fram hjá kerfinu. Hér erum við að tala um 6 þús. millj. kr. Hér er gríðarlegur ágreiningur, það eru atkvæði gegn málinu, rauð og gul ljós á atkvæðatöflunni. Stjórnin væri í miklum minni hluta ef allir mundu greiða atkvæði gegn þessu í stað þess að sitja hjá. Þetta er ekki nægilega vel útfært. Við erum hugsanlega að fara inn í eitthvert ástand þar sem við felum raunveruleg útgjöld. Ég spyr: Erum við að fara inn í grískt ástand? (Gripið fram í: Já.) Er þetta grískur harmleikur, þessi fjárlög? [Hlátur í þingsal.] Ég held það. (VigH: Rétt.) Ég sit hjá við þetta og held að það sé nauðsynlegt (Gripið fram í: Með glöðu geði.) að það verði skoðað verulega hvað þarf að gera í þessu máli. (Gripið fram í.)