139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingasjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga sem lagt er fram til að leita eftir heimild Alþingis til að staðfesta þá samninga sem áritaðir voru í London í síðustu viku, um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og til greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum.

Aðdragandinn að því nýja samkomulagi sem þarna á í hlut er sá að skömmu eftir að fyrir lá að gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um lánasamninga sem gerðir voru á síðasta ári varð ljóst að svo gæti farið að þeir yrðu felldir í þeim kosningum. Þá hófust samtöl milli forustumanna þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á hinu háa Alþingi um möguleikana á að taka þá samninga upp. Í því skyni fór ég ásamt m.a. formönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til fundar við bresk og hollensk stjórnvöld í Haag í janúar á þessu ári. Þar kom fram af hálfu þeirra stjórnvalda að þau kynnu að vera tilbúin til nýrra viðræðna að settum nokkrum skilyrðum. Þar á meðal voru þær forsendur fyrir því að endursemja um málið að breið pólitísk samstaða næðist um lúkningu samninga á Íslandi, að reynt yrði fljótt að komast að ásættanlegri niðurstöðu í málinu og að ekki yrði vefengt að umræðurnar byggðu á þeirri forsendu að lágmarkstrygging á innstæðunum yrði greidd að fullu og að Ísland væri tilbúið til að ræða um fjármögnunarkostnað.

Eftir umfangsmikið samráð milli flokkanna náðist um það samstaða að freista þess að ná samningum með öðrum og kostnaðarminni hætti en áður hafði tekist. Skipuð var síðan ný samninganefnd og ég tel að hún hafi unnið mikið og gott starf, harðsnúin samninganefnd sem var skipuð í febrúar sl., sömuleiðis í samstarfi allra stjórnmálaflokka. Þar var í forsvari virtur erlendur sérfræðingur í samningum, Lee Buchheit, en hann er þekktur sérfræðingur í alþjóðlegum lánaviðskiptum. Í forsvari fyrir nefndina hér heima fyrir var hins vegar Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Ásamt þeim sátu í aðalnefndinni Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, og hæstaréttarlögmennirnir Jóhannes Karl Sveinsson og Lárus L. Blöndal sem var sérstaklega tilnefndur til starfans af hálfu stjórnarandstöðunnar og vann sitt verk af heilindum og miklum dugnaði.

Umboð samninganefndarinnar hefur sömuleiðis verið útfært í samvinnu allra flokka og nefndin hefur á hverjum tíma átt náið samráð við formennina og aðra eftir atvikum. Samninganefndin hefur frá því að hún var skipuð unnið nær sleitulaust að viðfangsefni sínu og og ráðfært sig við og notið aðstoðar fjölda aðila bæði innan lands og utan.

Eiginlegir fundir eða viðræður við fulltrúa breskra og hollenskra stjórnvalda hafa farið fram í nokkrum snörpum lotum í höfuðborgum allra ríkjanna sem hlut eiga að máli, fyrst í febrúar og byrjun mars, en eftir að þeim var tímabundið frestað meðan þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram varð þeim ekki fram haldið — þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir af Íslands hálfu — fyrr en í júlí og september og lauk svo nýverið með áritun þeirra samninga sem nú liggja fyrir. Auk þessara fundalota hafa að sjálfsögðu átt sér stað fjölmargir símafundir, orðsendingaskipti og óformlegt samráð af ýmsu tagi. Þá hafa bakhópar sérfræðinga, einkum lögfræðinga og hagfræðinga, unnið að málinu.

Niðurstöður viðræðnanna gera í stórum dráttum ráð fyrir að í stað hefðbundinna lánasamninga verði gerðir endurgreiðslu- og skaðleysissamningar með aðild hlutaðeigandi ríkja og Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Endurgreiðslusamningarnir eru um margt með öðru sniði en fyrri lánasamningar vegna uppgjörs lágmarkstryggingar við innstæðueigendur Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Þeir gera ráð fyrir að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta endurgreiði breskum og hollenskum stjórnvöldum þær fjárhæðir sem þau hafa lagt út af því tilefni en fái í staðinn framseldan samsvarandi hluta krafna þeirra í bú bankans og annist um að innheimta þær.

Gert er ráð fyrir að tryggingarsjóðurinn nýti fyrst þá fjármuni sem til eru í sjóðnum til endurgreiðslu en að því búnu verði greiðslur inntar af hendi jöfnum höndum eftir því sem úthlutað er úr búi Landsbankans. Áfallandi vextir verða greiddir ársfjórðungslega fram á mitt ár 2016, þegar búist er við að úthlutun úr búi Landsbankans verði að mestu lokið, en frá þeim tíma skuldbindur ríkið sig til að standa undir eftirstöðvum skuldbindinga tryggingarsjóðsins með ákveðnum fjárhagslegum fyrirvörum og eftir nánar umsömdum viðmiðunum.

Höfuðstóll endurgreiðslufjárhæðarinnar er vaxtalaus fram til 1. október 2009 en ber eftir það fasta vexti sem eru ákvarðaðir 3% fyrir höfuðstól skuldbindingarinnar gagnvart Hollandi og 3,3% gagnvart Bretlandi. Hvort hlutfall um sig endurspeglar mismunandi fjármögnunarkostnað ríkjanna. Vegnir meðalvextir eru þá um 3,2% og gilda fram á mitt ár 2016 þegar ætlað er að búi Landsbankans hafi að mestu leyti verið skipt og kröfur á hendur því gerðar upp. Vaxtabyrði af endurgreiðslufjárhæðinni verður því mun lægri en orðið hefði að óbreyttum samningum. Sé tekið tillit til hins vaxtalausa tímabils eru jafnaðarvextir á tímabilinu 2009–2016 2,64% í stað 5,55% áður. (Gripið fram í.) Jafnframt er ábyrgð ríkisins takmörkuð eins og kostur er og í raun eingöngu bundin við samtímagreiðslur vaxta fram í júní 2016 annars vegar og hins vegar þann hluta sem ekki hefur verið innheimtur úr búi bankans að þeim tíma liðnum.

Meiri vissa er nú en þegar málið kom síðast til kasta Alþingis um endurheimtur úr búi Landsbankans og skilanefnd Landsbankans hefur nú í kjölfar fyrri samninga náð fullu valdi á eignum hans í Bretlandi og Hollandi. Skilanefndin telur í skýrslu sinni til kröfuhafafundar 9. nóvember 2010 að úthlutun upp í forgangskröfur muni nema 86%. Gangi það eftir gerir samningurinn ráð fyrir að skuldbindingin verði gerð upp á einu ári, eftir mitt ár 2016, þ.e. eigi síðar en um mitt ár 2017.

Raskist þessar áætlanir verulega gera samningarnir hins vegar ráð fyrir að heimilt verði að lengja endurgreiðslutímann um eitt ár fyrir hverja 10 milljarða kr. sem eftirstöðvarnar kunna að fara yfir 45 milljarða kr. Jafnframt er sett þak á árlega endurgreiðslubyrði þannig að hún nemi aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 5% af heildartekjum ríkisins á næstliðnu ári. Komi til þess að það hlutfall jafngildi lægri fjárhæð en 1,3% af vergri landsframleiðslu næstliðins árs skal þó hámark endurgreiðslunnar miðast við það. 1,3% af vergri landsframleiðslu jafngildir nú, eins og hv. alþingismönnum er örugglega morgunljóst, um 20 milljörðum kr. Endurgreiðslu eftirstöðvanna skal þó aldrei lokið á lengri tíma en 30 árum frá 2016 að telja.

Með þessum fyrirvörum má telja algerlega tryggt að greiðslur vegna Icesave-skuldbindingarinnar verði ávallt innan vel viðráðanlegra marka. Ólíklegt er að nokkru sinni muni reyna á áðurnefnt þak á greiðslur, enda verði árleg greiðslubyrði langt innan þeirra.

Samið hefur verið um vaxtakjör á eftirstöðvunum, verði þær einhverjar, frá þessu tímabili, þ.e. eftir mitt ár 2016, og verða þá notaðir svonefndir CIRR-vextir, annars vegar í sterlingspundum og hins vegar í evrum, án nokkurs vaxtaálags. CIRR-vextir eru lægstu vextir sem stjórnvöldum er heimilt að bjóða útflutningstryggingarsjóðum sínum og greinast í þrennt eftir tímalengd þeirra skuldbindinga sem þeir taka til, í fyrsta lagi vegna skuldbindinga sem ætlað er að vara skemur en í 5 ár, í öðru lagi á bilinu 5–8½ ár og í þriðja lagi lengur en það. Mundi áætlaður endurgreiðslutími, ef til slíks kæmi, ráða vaxtakjörunum í samræmi við þetta. Með því að fjárhæð eftirstöðvanna ræður því á hversu löngum tíma þær verða gerðar upp ræður hún þar af leiðandi um leið hvaða vaxtaviðmiðun verður fyrir valinu. Þessir CIRR-vextir eru sömuleiðis hv. alþingismönnum kunnir því að þeir komu við sögu í eldri samningum. Almennt eru þeir hinir hagstæðustu sem finna má í alþjóðlegum lánasamningum, enda er þeim eingöngu ætlað að endurspegla raunkostnað ríkja við fjármögnun og að þau lánskjör sem þannig eru boðin í útflutningslánasjóðum feli ekki í sér niðurgreiðslu eða ríkisstuðning. Ljóst er þó að ávallt verður leitað leiða til að greiða upp eftirstöðvarnar á sem hagkvæmastan hátt og stjórnvöldum er heimil greiðsla þeirra hvenær sem er án kostnaðar.

Ýmis lagaleg atriði hafa breyst og að mestu leyti Íslandi í hag frá fyrri samningum, svo sem varðandi gjaldfellingarákvæði, vanefndaúrræði, fjárhæðaviðmið og greiðslufresti. Miklu varðar einnig að úrlausn ágreiningsmála er flutt úr lögsögu breskra dómstóla og undir regluverk Alþjóðagerðardómstólsins í Haag. Fari svo að máli vegna samninganna verði vísað til hans munu aðilar tilnefna hvor sinn fulltrúann og fulltrúarnir síðan koma sér saman um oddamann. Þannig er tryggt að í málum er varða Ísland sitji ávallt aðili í gerðardóminum sem tilnefndur er af Íslandi.

Í samningsdrögunum er jafnframt sambærilegt ákvæði og áður um samráð aðila gefi efnahagsleg staða á Íslandi tilefni til. Skýrt er tekið fram að ákvæði um takmörkun friðhelgisréttinda hafi engin áhrif á eignir ríkisins sem njóta friðhelgi samkvæmt Vínarsamningnum um stjórnmálasamband, þær eignir á Íslandi sem eru nauðsynlegar fyrir Ísland sem fullvalda ríki eða eigur Seðlabanka Íslands. Síðast en ekki síst er áfram sambærilegt ákvæði og fyrr um náttúruauðlindir og eignarhald á þeim.

Samninganefndin hefur áætlað þann kostnað sem ætla má að falli á Ísland við framkvæmd samninganna. Við áætlunina er byggt á mati skilanefndar Landsbankans á heimtum á eignum þrotabúsins, horfum á greiðslum til kröfuhafa eins og þær eru metnar af slitastjórn bankans og reikniforsendum Seðlabanka Íslands varðandi þróun á gengi gjaldmiðla.

Niðurstaða matsins er að sá kostnaður sem falli á ríkissjóð verði innan við 50 milljarðar kr., þ.e. rúm 3% af landsframleiðslu. Er þá tekið tillit til þess að búið væri að ráðstafa um 20 milljörðum kr. af núverandi eigum tryggingarsjóðsins upp í skuldbindingarnar.

Þessi niðurstaða felur í sér að eingöngu vaxtakostnaður falli á ríkissjóð. Til greiðslu í byrjun næsta árs kæmu uppsafnaðir vextir, alls um 26 milljarðar kr., þar af 6 milljarðar kr. úr ríkissjóði, en greiðslur yrðu um 17 milljarðar kr. á næsta ári og færu hratt lækkandi árin þar á eftir. Greiðslum yrði að fullu lokið 2016.

Miðað við núverandi forsendur um heimtur eigna þrotabúsins hefði kostnaður við fyrri samning, metinn á sama hátt, numið um 180 milljörðum kr. eða um 162 milljörðum kr. að teknu tilliti til eigna tryggingarsjóðsins. Margt gerir að verkum að kostnaður fer lækkandi, þar skipta mestu lægri vextir. Vextir hafa haldist mjög lágir á alþjóðamörkuðum og sumpart lækkað, eins og í evrum. Styrking á gengi íslensku krónunnar frá því að kröfulýsingarfrestur í þrotabú Landsbankans rann út í apríl 2009 hefur sömuleiðis jákvæð áhrif en kröfufjárhæðir eru miðaðar við gengi krónu á þeim tíma. Kostnaður við þennan nýja samning svarar því til vel innan við þriðjungs af fyrra kostnaðarmati metið í núverandi stöðu og án núvirðinga með sambærilegum aðferðum.

Áhættuþættir vegna samninganna eru einkanlega þrír og þeir varða endurheimtur eigna til þrotabús Landsbankans, tímasetningu á greiðslum krafna og gengisþróun.

Eins og áður segir er meiri vissa en áður um heimtur úr búi Landsbankans og skilanefnd hans telur nú að úthlutun upp í forgangskröfur muni nema 86%. Mat á eignum hefur allan tímann reynst raunhæft en um leið varfærið. Þróunin hefur verið jákvæð í þessum efnum nær samfellt í heilt ár. Umtalsverðir fjármunir hafa þegar safnast til búsins og greiðslur hafa borist hraðar en greiðsluáætlun gerði ráð fyrir.

Engu að síður er að sjálfsögðu ekki hægt að útiloka að á þessu geti orðið einhverjar ófyrirséðar breytingar sem hafa mundu áhrif á það hversu mikið heimtist upp í kröfur. Eignaheimtur gætu auðvitað orðið verri ef einhver sérstök áföll kæmu til en verulegar líkur eru engu að síður taldar á að þær geti orðið betri, jafnvel umtalsvert betri.

Tafir á úthlutun úr búi bankans gætu auðvitað valdið því að uppsafnaðir vextir á höfuðstól yrðu eitthvað hærri en þá kemur vissulega vel til góða að vaxtakostnaðurinn hefur náðst jafnlangt niður og raun ber vitni. Slíkar tafir gætu mögulega stafað af dómsmálum og einhverri óvissu um úrlausn þeirra. Engu að síður er í þessu mati byggt á núverandi mati slitastjórnar sjálfrar um útgreiðslur.

Loks hefur gengi krónunnar, og kannski ekki síður innbyrðis gengi annarra gjaldmiðla, áhrif á það hver heildarkostnaður ríkissjóðs gæti orðið. Sem áður segir hefur styrking krónunnar frá því í apríl 2009 haft þar áhrif til lækkunar. Sú niðurstaða að heildarkostnaður ríkisins af Icesave-samningum verði um 47 milljarðar kr. byggist á reikniforsendum Seðlabankans en þær fela það í sér að gengi krónunnar muni fara hækkandi á komandi árum.

Það er mikilvæg forsenda þessara samninga að eignum úr búi Landsbankans verði úthlutað í samræmi við þá forgangsröð innstæðueigenda sem ákveðin var með neyðarlögunum svonefndu. Jafnvel þótt Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi í gær staðfest þá ákvörðun sína að fylgja ekki eftir kvörtunum þeirra kröfuhafa bankanna sem ekki vildu sætta sig við þá niðurstöðu hefur stofnunin sem kunnugt er stofnað til samningsbrotamáls á hendur íslenskum stjórnvöldum vegna Icesave-málsins. Ef samningar takast ekki um lausn málsins má búast við að það mál haldi áfram með útgáfu rökstudds álits og eftir atvikum málshöfðun fyrir EFTA-dómstólnum, en búast má við að málarekstur þar gæti tekið a.m.k. ár.

Ef niðurstaða ESA yrði staðfest þar er ljóst að samningsstaða Íslands yrði alvarlega löskuð. Áfellisdómur EFTA-dómstólsins hefði ekki aðeins alvarlegar lagalegar og pólitískar afleiðingar fyrir Ísland, rekstur EES-samningsins og aðgang að mörkuðum í Evrópu. Með áfellisdómi væri einnig rutt úr vegi einni mikilvægustu ástæðunni fyrir því að við höfum með nokkrum rétti getað haldið því fram í viðræðunum að lagaleg óvissa um greiðsluskyldu ætti að leiða til betri kjara fyrir okkur. Að henni frátalinni væri a.m.k. fátt sem virtist geta mælt með því að Bretar og Hollendingar ættu að semja við okkur á betri kjörum en samdist um í júní og október á síðasta ári.

Ég ætla þó ekki að fara lengra út í þá sálma að svo stöddu enda engin ástæða til. Fyrir hinu háa Alþingi liggur nýtt samkomulag, nýr samningur, sem er efni umræðunnar hér í dag.

Á grundvelli hins nýja samkomulags er meginefni frumvarps þessa fólgið í heimild til að staðfesta hina nýju samninga við bresk og hollensk stjórnvöld og árétta að heimilt verði samkvæmt þeim að skuldbinda ríkissjóð til að mæta eftirstöðvum og vöxtum vegna krafna Hollendinga og Breta vegna greiðslu lágmarkstryggingar á reikningum í útibúum Landsbankans í Hollandi og Bretlandi.

Ég legg áherslu á að engir samningar verða hins vegar undirritaðir fyrr en Alþingi hefur lokið umfjöllun sinni og samþykki þess liggur eftir atvikum fyrir. Samningarnir voru áritaðir með upphafsstöfum samninganefndarmanna landanna í London hinn 8. desember sl. Áritunin er til vitnis um þá niðurstöðu sem fengin er í viðræðum ríkjanna en fyrir liggur að samningarnir verða ekki undirritaðir nema Alþingi hafi veitt samþykki sitt fyrir því að stjórnvöld takist þær skuldbindingar á herðar.

Ég tel ekki ástæðu til, virðulegi forseti, að víkja frekar að einstökum ákvæðum frumvarpsins hér enda er það afar einfalt, í fjórum greinum að viðbættu ákvæði til bráðabirgða, en vísa fremur til mjög vandaðra athugasemda sem frumvarpinu fylgja. Ég hef einnig kosið að birta með því texta samninganna sem að baki liggja í heild sinni ásamt íslenskri þýðingu og skýringum við einstök ákvæði, en með því móti vænti ég þess að efni þeirra hafi verið gert þeim er vilja kynna sér eins aðgengilegt og frekast er kostur á þeim skamma tíma sem liðinn er frá því drögin voru árituð. Eins og hv. þingmenn vita eru fylgigögnin ítarleg, og ég sé að margir fletta þeim hér á borðum, og í greinargerð frumvarpsins er reynt að fara eins vel yfir þetta mál og kostur er en að sjálfsögðu er hægt að reiða fram viðbótarefni og ítargögn eftir óskum hv. þingnefndar sem ég mun leggja til að fái málið til umfjöllunar. Þannig verður og samninganefndin og sérfræðingar hennar, bæði innlendir og erlendir, boðnir og búnir til að aðstoða Alþingi í umfjöllun um málið.

Ég legg svo til, virðulegur forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar sem er málinu sem slíku býsna kunnug eftir allmiklar setur yfir því á undanförnum missirum, einu og hálfu ári að verða. Ég vonast til þess að við berum gæfu til þess að varðveita samstöðu um að reyna að ljúka þessu erfiða máli. Ég tel að það hafi verið dýrmætt, og tvímælalaust á það sinn þátt í því að skila þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir af hálfu samninganefndanna, að á bak við okkar nefnd stóð þverpólitísk samstaða í landinu. Einhvern veginn mun því nú alltaf ljúka þannig að þetta mál fái niðurstöðu af Íslands hálfu, það þarf að gerast og ég held að það væri góð gjöf til þjóðarinnar ef við gætum í heimi stjórnmálanna sameinast um að klára þetta á þann hátt sem við teldum áhættuminnstan og hagstæðastan fyrir Ísland miðað við vandað mat á öllum okkar aðstæðum.

Fari svo vel að kostnaðurinn af þessu verði þó ekki meiri en sá sem ég hef hér farið yfir, og byggir á mati samninganefndarinnar, yrði það minna og miklu minna en margir hafa óttast að orðið gæti. Vissulega getur þar á orðið frávik en það getur þá orðið í báðar áttir, það er í sjálfu sér innbyggt í málið að við gætum komist að lokum frá þessu án nokkurs kostnaðar en hann gæti auðvitað líka orðið eitthvað meiri en þetta mat samninganefndarinnar gengur út frá. Mér finnst það þó hughreystandi að allar áætlanir skilanefndar og slitastjórnar hafa fram að þessu reynst traustar og þær hafa tekið breytingum eingöngu til batnaðar um mjög langt skeið og berast af því fréttir að mögulega gæti komið til þess að búið ætti kost á að selja mjög verðmætar eignir úr safni sínu, jafnvel á næstu mánuðum, sem að sjálfsögðu væru góð tíðindi og hefðu á það áhrif að greiðslur bærust þá hraðar inn í búið eins og þær hafa reyndar þegar gert borið saman við eldri áætlanir. Óþarft er að taka fram að allt slíkt mundi að sjálfsögðu spara mikla fjármuni í formi minni vaxtagreiðslna eftir því sem fjármunir búsins yrðu meiri á fyrsta hluta endurgreiðslutímans.

Er það ekki bara þannig, frú forseti, að best sé að vera raunsær en hæfilega bjartsýnn og vona að við eigum þess kost að komast að lokum sem klakklausast frá þessu máli? Það hefur reynt á, verið okkur erfitt, það hefur farið í það mikill tími og mikil orka. Það hefur valdið deilum hér innan veggja og úti í samfélaginu en það er eins og það er, það er arfur frá liðnum tíma sem við komumst ekki undan að horfast í augu við og takast á við. Það er okkar viðfangsefni, verkefni og skylda að reyna að leiða það til lykta á þann farsælasta og hagstæðasta hátt sem við teljum að við eigum kost á. Og þá skyldu hljótum við öll að þurfa að taka alvarlega, hver sem niðurstaða okkar verður.

Ég á mér þá ósk sömuleiðis að við getum nú átt sem málefnalegasta og hlutlægasta umræðu um þetta. Ýmis orð hafa fallið, þar á meðal frá þeim sem hér stendur, en það hafa líka aðrir sagt ýmislegt um þessi mál sem þeir eiga kannski eftir að hugleiða síðar meir hvort hafi verið fullar innstæður fyrir. Hér hefur stundum flogið um sali án þess að vera nefnt með beinum hætti kannski stærsta orðið sem hægt er að segja um stjórnmálamenn og ég vona sannarlega að við þurfum ekki að viðhafa slíkt orðbragð í þessari umferð. (Gripið fram í: Þú talaðir nú ekki …)