139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál á sér orðið heilmikla sögu og hún verður örugglega einhvern tímann skrifuð. Þá verður það örugglega leitt í ljós eins og reyndar að hluta til er gert í rannsóknarskýrslu Alþingis að staða Íslands var mjög erfið í þessu máli í byrjun. Við vorum undir ógnarþrýstingi og fyrstu hugmyndir manna um að leysa þetta mál voru Íslandi bersýnilega afar óhagstæðar og í raun ósanngjarnar. Síðan leið tíminn og við gætum þá líka velt fyrir okkur hvort stjórnarskiptin hafi verið hluti af láni Íslands. Að minnsta kosti kom ekki til þess að málið yrði klárað á þeim forsendum sem þá voru hugmyndir uppi um. Einnig skiptir máli hversu langan tíma hefur tekið að ræða þetta í Alþingi og svo hvernig fór með viðaukasamningana í byrjun þessa árs en þá verðum við að hafa í huga, hv. þingmenn, að það hefur heldur ekki verið án fórna og kostnaðar fyrir Ísland hversu mjög hefur dregist að leysa þetta mál. Þá reikninga munum við aldrei geta séð því að við getum ekki borið raunveruleikann saman (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) við eitthvað annað sem hefði orðið ef málin hefðu tekið aðra stefnu. Þetta er það sem við glímum alltaf við í sögunni.