139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra, ég vonast auðvitað eftir því að hér fari fram yfirveguð og málefnaleg umræða. En það fer ekki vel af stað þegar við erum jafnósammála um eitt atriði eins og það hversu mikilvæg þjóðaratkvæðagreiðslan var til að taka málið upp úr þessum ómögulega farvegi. Það sem ég heyri hæstv. fjármálaráðherra segja er í raun og veru ítrekun á því sem áður hefur komið fram, að hún hafi verið óþörf og hefði betur ekki farið fram vegna þess að ég heyri hæstv. fjármálaráðherra lýsa þeirri skoðun sinni að kostnaðurinn af töfinni sé slíkur og óþægindin hafi orðið okkur svo kostnaðarsöm að öðru leyti að við séum enn þá í sömu stöðu og fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Ja, heyr á endemi.