139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hversu mikið það hefur upp á sig að ég hafi einhverja skoðun sérstaklega á framgöngu ESA. Við eigum sem ríki mjög mörg opin mál í samskiptum við þessa stofnun og þurfum að rækta það samstarf því að við eigum undir hana að sækja með túlkun á ýmsu sem við gerum hér. Þar á meðal hafa risið fjölmörg álitamál sem tengjast spurningum um ríkisaðstoð eða ekki ríkisaðstoð í kjölfar setningar neyðarlaganna og endurreisnar bankanna og sparisjóða. Það er alls ekki í okkar höndum að stjórna því hvaða mál ESA tekur fyrir og hvernig, hvenær það tekur mál til skoðunar og hvenær ekki. Ég fagna þeirri niðurstöðu samskipta frá í fyrradag, ég tel hana mjög mikilvæga, að ESA hafi lokað því máli sem sneri að gildi neyðarlaganna og því sem gert var, að gera innstæður að forgangskröfum í bú. Það er okkur gríðarlega verðmæt niðurstaða og mikilvæg þótt við kunnum að vera eitthvað minna ánægð með það hvernig stofnunin stendur að málum (Forseti hringir.) í einstökum öðrum tilvikum. Ég veit ekki hvort við bætum okkur með því að útmála það endilega með mjög sterkum orðum.