139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:06]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir þessa athyglisverðu ræðu. Það sem er kannski fyrst og fremst athyglisvert við hana er sá langi tími sem það virðist ætla að taka Sjálfstæðisflokkinn að komast að niðurstöðu í málinu. Það hlýtur að teljast fréttnæmt í sjálfu sér að formaður Sjálfstæðisflokksins flytji hér langa ræðu um þetta stóra mál án þess að hægt sé að glöggva sig á niðurstöðunni og væri forvitnilegt að fá að vita hversu langan tíma hv. þingmaður ætlar sér í einhverja niðurstöðu í málinu. Ef minnið svíkur mig ekki var afgreiðsla Sjálfstæðisflokksins á hinum síðari samningi sem hv. þingmaður fór mjög hörðum orðum um sú að sitja hjá við afgreiðslu samningsins, (REÁ: Nei, þetta er rangt.) (Gripið fram í.) koma að alls konar breytingartillögum en sitja síðan hjá við afgreiðsluna. Kannski fer ég rangt með þetta og þá leiðréttir hv. þingmaður mig. Ef það hefur verið niðurstaðan væri forvitnilegt að heyra hvernig menn ætla að leggja út af þessum samningi sem hv. þingmaður bendir réttilega á að er mun betri. Þetta held ég að hv. þingmaður verði að útskýra fyrir þeim sem eru að hlýða á og taka þátt í þessari umræðu þannig að það sé alveg á hreinu.

Þá væri einnig forvitnilegt út af þeim tölum sem menn ræða hér að vita hvort hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa farið í sams konar útreikninga á kostnaðinum við samninginn upp á 6,7% vexti sem gerður var af forustumönnum Sjálfstæðisflokksins og hver hann væri til samanburðar við þann samning sem við ræðum hér. (Gripið fram í.)