139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það færi þeim langbest sem digrust höfðu orðin í fyrri umræðum um þetta mál í öðrum búningi að vera ekki að þrýsta á aðra þingmenn um að flýta sér að taka afstöðu til málsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ætli það hafi ekki verið þeir og þeirra flokkur sem þá misreiknaði sig, eins og t.d. þegar Rauði þráðurinn, fréttabréf Samfylkingarinnar, komst að þeirri niðurstöðu í desember á síðasta ári að valkostirnir væru Icesave eða ísöld. Eftir að hafa gaumgæft málið var það yfirskrift fréttabréfs Samfylkingarinnar. Nú, eða sú skoðun allra hv. þingmanna Samfylkingarinnar sem komu hver á fætur öðrum í atkvæðaskýringu undir lok síðasta árs þegar seinni samningurinn var afgreiddur og lýstu því mjög fjálglega yfir að það væri ekki völ á betri samningi, það þýddi ekkert að ræða það frekar. (Gripið fram í.) Þetta var umræða sem kom í kjölfar þess að við í stjórnarandstöðunni, sjálfstæðismenn, framsóknarmenn og fulltrúar Hreyfingarinnar, á þingi töluðum til stjórnarliðanna og sögðum við þá: Stöndum saman, þetta eru okkar sameiginlegu hagsmunir sem við erum að verja. Látum ekki erlend öfl kljúfa okkur í samstöðunni gegn afarkostum og þvingunum. Látum ekki stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segja okkur fyrir verkum, látum ekki fjármálaráðherra Evrópusambandsríkjanna setja okkur einhverja afarkosti. Stöndum á rétti okkar, komum fram sem fullvalda þjóð og þá munum við ná fram réttlætinu. Það er nákvæmlega það sem hefur gerst á þessu ári. Nú liggur fyrir niðurstaða samninganefndanna. Ég ætla að taka mér allan þann tíma sem ég tel nauðsynlegan til að gaumgæfa lagaleg og efnahagsleg atriði. Þau verða rædd í þaula í fjárlaganefnd (Forseti hringir.) og ég efast ekki um að við sjálfstæðismenn munum komast að réttri niðurstöðu með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.