139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:15]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég gengst að sjálfsögðu við því að hafa átt í góðu samstarfi og samráði við fulltrúa stjórnarandstöðunnar í samninganefndinni og ég hef fylgst eins náið með þessu samningaferli og mér hefur verið kostur. Ég hef í sjálfu sér aldrei séð nein gögn en ég hef verið ágætlega upplýstur um stöðu málsins á hverjum tíma og þess vegna er ekkert rangt með farið, hvorki hjá Lárusi Blöndal né Össuri Skarphéðinssyni, að stjórnarandstaðan eigi sinn þátt í þeirri gjörbreyttu stöðu sem upp er komin eftir niðurstöðu samninganefndanna. Það er hárrétt.

Eftir stendur hins vegar alltaf hitt að það er sannfæring mín að við Íslendingar höfum enga lagaskyldu til að taka á okkur neinar ábyrgðir. Þess vegna á ég afskaplega erfitt með að taka við hamingjuóskum vegna þess samnings sem hér er borinn fram, ég á afskaplega erfitt með að gera það og fari það svo á endanum, sem enn er algjörlega óvíst með, að heildarhagsmunum okkar Íslendinga væri best borgið með því að ljúka málinu á þessum forsendum mundi ég aldrei greiða atkvæði með því með nokkurri einustu gleði í hjarta vegna þess að þetta mál er auðvitað ekkert annað en ein samfelld hörmung.

Það verður þó að taka það fram að með því að afgreiða málið er annars vegar verið að eyða vissum efnahagslegum áhættuþáttum en taka á sig aðra, eyða ýmsum lagalegum áhættuþáttum og taka á sig aðra. Þannig er það. Þetta er flókið mat og við eigum að gefa okkur tíma til að fara yfir það. Ég treysti fjárlaganefndarfólkinu sem er orðið mjög sjóað í meðferð Icesave-málsins eftir atburði ársins 2009 til að skoða alla mikilvægustu þætti málsins.